Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ég er það sem ég borða..

Fyrir nokkrum árum, þá var ég orðinn (að eigin mati) feitur. Ef ég skoða myndir af mér frá 4-5 árum síðan, þegar ég var á hátindi leti minnar, þá var ég amk 20kg of þungur, og ekki af vöðvum. Nei ég var með 20kg af pizzu og coca cola, sem líkaminn hafði samviskusamlega geymt til vara, meðferðis hvert sem ég fór.

Í dag er sagan aðeins önnur, og ástæðan fyrir því frekar en hvað annað, mataræði. Árið 2002 ákvað ég að prófa mataræði sem móðir mín mælti mjög sterklega með, en þetta var á þeim tíma þekkt sem "Atkins kúrinn". Margir hafa tekið sig til og drullað hressilega yfir þetta mataræði, á þeim forsendum að þetta sé óhollt, virki ekki, maður sé alltaf svangur, eða alltaf þreyttur, osfrv. En staðreyndin er sú að ef maður trúir (sem maður ætti að gera) gamla enska máltækinu "You are what you eat", þá er auðvitað mun skynsamlegra að borða kjöt og prótein ríka fæðu frekar en kolvetnaríka.

Líkaminn er öflug græja, en hann getur ekki búið til vöðva úr sykri. Hann getur hinsvegar búið til fitu úr sykri. Þegar ég prófaði Atkins kúrinn, þá borðaði ég ekkert brauð, ekkert pasta, engar kartöflur, engin hrísgrjón, engan sykur, í einn mánuð, þess í stað borðaði ég mikið af skyri, eggjum, beikoni, kjúklingi, kjöti af allskyns gerðum, grænmeti, og ostum. Á þessum mánuði gerði ég lítið nema vinna (að mestu leiti heiman frá mér), og borða -- ég borðaði eins og mig lysti, var með byrgðir af öllu sem ég mátti borða og hakkaði í mig fyrrgreinda fæðu, og drakk pepsi max (ég var forfallinn kókisti fyrir þetta átak mitt). Ég missti 11kg á þessum mánuði, án þess að reyna það, því ég tók þetta alls ekki alvarlega, hélt þetta myndi auðvitað ekkert virka, matur er matur, hitaeining er hitaeining, osfrv. Vá hvað ég hafði rangt fyrir mér.

Eftir þetta hafði ég bara í huga að borða minni franskar og sjaldnar pizzu, og fyrir utan einhver leti tímabil þá borða ég lítið sælgæti, og mér finnst sykrað kók vont í dag. Svo fyrir ca. ári síðan ákvað ég að taka mig almennilega í gegn, ég var svo sem alveg sáttur við sjálfan mig eins og ég var, nema ég saknaði þess að vera í góðu formi líkamlega, eins og ég var á yngri árum þegar maður stundaði íþróttir, og mig langaði til að losna við kannski svona 3-4kg af bjórbumbu.

Að sjálfsögðu, eftir reynslu mína af breyttu mataræði, ákvað ég að rannsaka líka áhrif næringar á heilsu, og hvort ég gæti komist í betra form hraðar ef ég bætti mataræðið enn frekar. Svo ég fór á netið og las mér aðeins til um næringu -- áður en ég vissi af var ég kominn djúpt í bæði pælingar úthaldsíþróttamanna sem og kraftlyftingamanna. Lykillinn að þessu öllu virtist vera blanda af próteini, góðri fitu, og flóknum kolvetnum þegar brennsla er í gangi.

Svo þetta er spurning um hlutföll, til að bæta við sig vöðvamassa (sem er fínt upp að vissu marki) þarf maður að borða alveg ótrúlega mikið prótein, eða fyrir mann eins og mig, sem er tæp 90kg, uppundir 200g af hreinu próteini á dag. Við slíka inntöku komst ég að því að ég hafði varla pláss fyrir neitt annað, ég drakk kannski 2-3 skyrdrykki á dag, sem eru 40-60g af próteini, svo fékk maður sér kannski einn heavy special, sem eru svona 50g í viðbót, og svo var ég farinn að blanda mysuprótein í vatn á kvöldin til að reyna að ná þessum 200g. Ég hugsaði ekkert um hitaeiningar, og hef aldrei gert.

Án þess að reyna það var ég kominn á mjög svipað mataræði og Atkins kúrinn. Þetta fannst mér frekar fyndin tilviljun. Árangurinn lét ekki á sér standa, eftir svona mánuð af því að gera ekkert nema borða prótein, hlaupa nokkra kílómetra svona 3-4 sinnum í viku, og taka armbeygjur, bolbeygjur, og upplyftur heima hjá mér, var ég strax orðinn miklu hressari, hafði grennst, og samt bætt á mig vöðvamassa.

Rannsóknir mínar á netinu (takk wikipedia) höfðu leitt ýmislegt í ljós, til að mynda að rétt næring snýst mikið um hlutföll, og í daglegu mataræði fólks er yfirleitt of hátt hlutfall af kolvetnum, og oft sláandi hátt hlutfall þeirra hvítur sykur. Nú spyrja kannski sumir; Ok, ef maður er að reyna að bæta sig þá skiptir þetta kannski máli, en ef maður vill bara vera eins og maður er, getur maður ekki bara lifað á hverju sem er, svo lengi sem maður borðar ekki of margar kaloríur? Mitt svar við þessari spurningu er að það sé vissulega hægt að komast af á hitaeiningunum sama hvað maður borðar, en matur snýst um næringu ekki hitaeiningar.

Mikill misskilningur ríkir um tilgang þess að borða finnst mér, en í matnum okkar er ekki bara eldsneyti fyrir líkamann, heldur einnig efni sem líkaminn notar í líkamsstarfsemi, t.d. prótein til að byggja upp vefi líkamans, svo sem vöðva og líffæri, einnig er þar að finna vítamín og fitusýrur, og hundruði mismunandi efna sem eru notuð til að halda okkur gangandi; hreinsa út eitur, eða framleiða boðefni, osfrv. Ef fæðan manns inniheldur bara orkuna til að halda sér vakandi og gangandi, en ekki næringarefnin til að líkaminn starfi rétt, þá verður maður að sjálfsögðu slappur á endanum.

Í dag reyni ég að passa uppá að borða ekki máltíð þar sem ekki er helst 50% eða meira af henni í formi próteina, og það hlýtur að vera að virka, þar sem þrátt fyrir mikla leti og hreyfingarleysi í haust eftir meiðsl, slitróttar æfingar undanfarna 4-5 mánuði, og mikla drykkju, þá hefur bjórbumban ekki reynt comeback -- þetta verður samt líklega erfiðara eftir því sem maður færist nær gröfinni.

Ég borða kjöt, því ég vil vera kjöt, en ekki brauð ;-) 

Vonandi mun þetta blaður mitt hressa og kæta.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband