Shadow Parade og Telepathetics 19. apríl

Síðastliðinn miðvikudag skellti ég mér á tónleika á Gauknum. Aðal ástæða farar minnar var áhugi minn á hljómsveit sem heitir Shadow Parade, en hljómsveitin vildi bæta mér við á MySpace í haust -- og eins og yfirleitt þegar það gerist, þá ákvað ég að hlusta á efnið þeirra, og ef mér líkar vel, þá samþykki ég beiðnina, eingöngu til að fleiri rekist á sveitina.

Ég fór á rokk.is, þar sem þeir hafa skráð tvö lög inn, en þau eru bæði eins og þeir orða það sjálfir "lágstemmd rokklög". Ég er persónulega mjög hrifinn af báðum þessum lögum, en þau eru í grunninn róleg og melódísk en eiga samt sína spretti -- í stuttu máli sagt, fallegt, vel gert rokk.

En aftur að tónleikunum, eftir að ég hafði ákveðið að taka góðu boði Shadow Parade manna til MySpace vina sinna um að koma á tónleikana, þá komst ég að því að önnur hljómsveit sem vakið hefur svolitla athygli undanfarið, Telepathetics, voru einnig að spila, og voru þeir á undan Shadow Parade á svið. Mér fannst Telepathetics minna mig svolítið á Muse hvað varðar hraða og basic sánd, en lögin að sjálfsögðu einfaldari en Muse lög en engu að síður mjög þétt og þokkalegir sprettir á ferð, þó svo mér hafi þótt þetta örlítið of mónótónískt. Mér skilst að þeirra eigin sögn þá séu meðal þeirra helstu áhrifavalda þeir Jeff Buckley og Thom Yorke, sem ég gat nú varla merkt af tónlistinni, en það gæti sagt ýmislegt um mína vanþekkingu, sem og að þrátt fyrir að verða fyrir áhrifum þurfa hljómsveitir alls ekki að hljóma eins og áhrifavaldarnir, sem betur fer.

Ég var mjög sáttur með að heyra í Telepathetics, en sérstaklega þótti mér söngvarinn vera góður, en einnig hefur hljómsveitin flottan stíl (svartar skyrtur, hvít mjó bindi), eru góðir saman, og kæmi mér ekki á óvart ef mér líkaði betur við lögin þeirra eftir meiri hlustun. Ég veit ekki hvað það er, mögulega klæðaburður og örlítið sándið þeirra, en mér varð oft hugsað til Interpol á meðan þeir spiluðu.

Jæja, nú er komið að safaríka bitanum, Shadow Parade, en ég er algjör sökker fyrir lágstemmdu, góðu rokki, og þessi tvö lög sem ég hafði heyrt á netinu lofuðu góðu, minntu mig svolítið á eina af mínum uppáhalds hljómsveitum, The Veils. Ég get í raun lítið sagt um þessa tónleika, nema að strákarnir í Shadow Parade voru betri en ég bjóst við, og ég bjóst við mjög góðum tónleikum, þeir spiluðu nýtt (amk fyrir mér), aðeins harðara efni, og það var að virka ótrúlega vel, hörkugott rokk hér á ferð, í lokin tóku þeir svo It Grows ásamt Jenna úr Brain Police, sem var að sjálfsögðu rosalegt enda er Jenni að mínu mati einhver besti rokksöngvari Íslands, og enduðu svo showið á coveri af  Doors smellnum Love her madly, má segja að á þessum tímapunkti hafi verið orðin hörkustemning.

Ef ég skildi þá rétt var eitt lagið, Dead man's hand, spilað opinberlega í fyrsta sinn, og fannst mér talsvert varið í það, talsvert hraðara og harðara en Eyes Meet og Nothing for me, lögin tvö sem vöktu áhuga minn upprunalega, en gott rokk þar á ferð engu að síður. Mér finnst hljómsveitin minna mig talsvert á Radiohead, og getur það ekki talist annað en gott, en skv. þeim sjálfum mun Radiohead vera ein af þeirra uppáhalds hljómsveitum, sem og the Doors.

Ég fór á tónleikana með talsverðar vonir, sem veit yfirleitt ekki á gott, því vonir eru forsendur vonbrigða, sem ég varð alls alls ekki fyrir í þetta sinn, í staðinn reyndist bandið fjölhæfara og betra en ég hafði vonast til, spiluðu af öryggi og innlifun, lögin eru vel smíðuð með góðum melódíum, og nú bíð ég bara í ofvæni eftir plötu með meira efni, en þangað til reikna ég með að láta sjá mig á tónleikum með þeim reglulega.

 

Edit; misskilningur hjá mér varðandi nýtt efni, svo ég strikaði yfir það hér að ofan, hinsvegar var Beggi söngvari Shadow Parade að tjá mér að platan þeirra sé næstum tilbúin, svo ég bíð spenntur ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband