Stafrænt frelsi og rétturinn til að vita

[Grein upprunalega birt á vefsvæði Félags um stafrænt frelsi á Íslandi]

Vegna yfirstandandi heimskreppu og alvarlegra áhrifa hennar á Íslandi hefur umræða um stafrænt frelsi og þá sérstaklega frjálsan hugbúnað snúist að stórum hluta um efnahagslegar afleiðingar þess að borga fyrir eitthvað sem hægt er að fá ókeypis. Þetta er eðlileg og mikilvæg spurning, sem samkvæmt mér og fleirum á sér einfalt svar: Það er aldrei réttlætanlegt að eyða fjármunum almennings að óþörfu. Þetta er staðreynd sem er sönn í hvaða samhengi sem er. Þess vegna langar mig að ræða um stafrænt frelsi frá öðru sjónarmiði, frá mannréttindasjónarmiði og hvaða áhrif það getur haft á líf og möguleika komandi kynslóða.

Einn gesta okkar (FSFÍ) á ráðstefnunni síðasta sumar var John Perry Barlow, og hélt hann afar vandaða ræðu um réttinn til að vita, en það eru mannréttindi sem hann telur nauðsynlegt að ríkisstjórnir heimsins tryggi komandi kynslóðum: að þær séu ekki hnepptar í þrældóm vanþekkingar og tapi frelsi sínu í stafrænum heimi þar sem upplýsingar og þekking eru hráefni nýs iðnaðar. Þetta er áhugavert sjónarmið þar sem það lýsir í fáum orðum nákvæmlega því sem baráttumenn stafræns frelsis berjast fyrir.

Stafrænt frelsi er hugtak sem við neyddumst til að nota, ekki því að það sé auðvelt að skilgreina það, heldur því að okkur steðjar mikil ógn nú þegar samfélagið samræmist tækninni í sífellt auknum mæli, og okkar daglega líf á sér sífellt fleiri stafrænar hliðar. Spurningarnar sem vakna upp eru til dæmis hver á upplýsingarnar mínar, og hvenær á ég upplýsingar og hvenær ekki? Get ég treyst því að hugbúnaðurinn sem ég nota setji mig ekki í hættu? Má ég athuga hvað hugbúnaðurinn er að gera? Hvenær er ég að brjóta lög í tölvunni?

Svörin við þessum spurningum eru oft óljós og gráa svæðið virðist stórt, og samt eru þær aðeins örfá dæmi um þær hættur sem getja steðjað að almenningi í stafrænu umhverfi þar sem lagalegt virki er ekki fullgert eða sniðið að nýjum aðstæðum til að vernda rétt einstaklinga í stafrænu samhengi. Það getur t.d. átt við um að stjórna eigin umhverfi, stýra aðgengi að sínum upplýsingum, deila upplýsingum og svo framvegis.

Nú hef ég minnst á nokkrar mikilvægar hliðar stafræns frelsis, og reynt að gefa örlitla kynningu á því en þar sem ég er hvorki siðfræðingur né lögfræðingur treysti ég mér ekki til að skilgreina það frekar hér, og vona að þessi inngangur dugi. Næst vil ég nefnilega tala um eitthvað sem ég þekki persónulega, frjálsan hugbúnað Frjáls hugbúnaður er m.a.s. frekar villandi nafn, því það er ekki bara hugbúnaðurinn sem er frjáls, heldur fyrst og fremst notandinn, og frelsi það sem hugbúnaðurinn býr yfir notendum sínum til góða, hefur gífurlega jákvæðar aukaverkanir í stærra samhengi stafræns frelsis.

Mikilvægi frjáls hugbúnaðar fyrir mannlegt samfélag nær nefnilega langt, langt útfyrir fjárhagslegan sparnað til skamms tíma. Frjáls hugbúnaður er samkvæmt eðli sínu öllum opinn, aðgengilegur, og gegnsær, svo allt samfélagið getur skoðað og gagnrýnt þá virkni og ferla sem notast er við, öryggisholur má finna og laga, bakdyr get ekki leynst bakvið óskiljanlegt vélamál, og sama gildir um þau ferli sem meðhöndla persónulegar upplýsingar. Við höfum rétt á því að vita hvernig (stafræni) heimurinn virkar, og notkun og útbreiðsla frjáls hugbúnaðar er stórt skref í átt til þess. Viljum við stafrænar kosningar þar sem enginn getur gagnrýnt hugbúnaðarferlana, eða fundið villur eða öryggisholur? Viljum við stafrænt umhverfi þar sem okkar gögn, okkar réttur, okkar frelsi er bundið ákvörðunum aðila (hugbúnaðarframleiðanda) sem við höfum engin áhrif á, enga stjórn yfir?

Viljum við að komandi kynslóðir búi við umhverfi sem leyfir þeim að skilja, leyfir þeim að vita hvernig umhverfi þeirra virkar, eða viljum við að komandi kynslóðir, þekking þeirra og örlög verði fjötruð af lögum og reglum sem samræmast ekki nýju umhverfi, fjötruð í upplýsingakerfum sem hafa sitt fyrsta markmið að skapa verðmæti fyrir eigendur sína, og kannski sem næsta markmið að veita þjónustu. Eins og Barlow sagði þá snýst þetta um réttinn til að vita allt sem snertir mann persónulega, vita hvað skattpeningurinn manns fer í, hver hefur aðgang að gögnunum manns, og þar sem tækni nútímans leyfir okkur að deila upplýsingum með því sem næst engum kostnaði þá höfum við öll réttinn á að vita allt sem varðar okkur sjálf eða engan annan. Eðli stafræna heimsins er slíkt að upplýsingar geta flætt því sem næst óendanlega og kostnaðarlaus milli okkar. Það eina sem heftir frjálst flæði þekkingar og hraðari framþróun mannkyns er okkar eigi hræðsla við að aðlagast breyttum aðstæðum.

Ég segi, bregðumst við strax! Gegnsæji og frjálst flæði upplýsinga strax! Stjórnvöld á Íslandi hafa undanfarin ár gert meira rétt en rangt í þessum efnum, og við í FSFÍ höfum síðan félagið var stofnað átt góð samskipt við stjórnvöld, og við trúum því að viljinn sé fyrir hendi hjá flestum flokkum til að tryggja það að á Ísland skapist umhverfi þar sem stafrænu frelsi okkar er ekki ógnað, þar sem allar mikilvægar hliðar samfélagsin eru okkur skiljanlegar, og upplýsingar og þekking sem við byggjum upp saman er okkur öllum aðgengileg, hvort sem um ræðir fyriræki eða einstaklinga. En nú er komið að þér, kæri lesandi, að láta stafrænt frelsi þig varða, og ekki sætta þig við fjötra vanþekkingar og ógegnsæjis. Án almennrar vitundarvakningar samfélagsins og þrýstings frá almenningi er ólíklegt að frelsissjónarmið okkar nái fram að ganga, og því miður líklegt að einkahagsmunir fárra en stórra fyrirtækja sem hafa grætt vel á óbreyttu ástandi muni fá framsætið, og afleiðingar þess til lengri tíma gætu orðið skelfilegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband