Færsluflokkur: Tónlist

Viðurstyggð

Ég fór í gær á tónleika á Grand Rokk, var svolítið í seinni kantinum því við Varði gleymdum tímanum við leit að kínverskum black metal, því misstum við af Númer Núll, en náðum síðara bandinu, Viðurstyggð.

Þetta var frekar skemmtilegt band fannst mér, óheflað og pönkað stelpuband. Skemmtileg uppreisn þar á ferð. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína varðandi tvo upprunalegu meðlimi viðurstyggðar, þó ég hafi náð því í gær að sú sem spilar á gítar og syngur heitir Katla, því miður veit ég ekki hvað snótin sem lemur húðir í Viðurstyggð heitir, kannski einhver geti frætt mig um það?

Bassaleikara Viðurstyggðar kannaðist ég hinsvegar svolítið við, en hún Gunna er fyrrverandi bassaleikari hljómsveitarinnar Mammút sem ég bloggaði um hér ekki alls fyrir löngu. En sagan á götunni er sú að Gunna hafi hætt í Mammút því stefna bandsins sé að breytast of mikið með tilkomu plötusamnings, umboðsmanns, og svo framvegis. Þetta getur ekki talist gott. Gunna er góður bassaleikari, og hefur þetta varla verið auðveld ákvörðun.

Það verður áhugavert að heyra hvort tónlistin hjá Mammút breytist mikið í kjölfar þessa. Hún mun pottþétt breytast, það er engin spurning, en því miður þykir mér ólíklegt að hún muni breytast til hins betra :-/

Í öðrum fréttum þá er ég að hlusta á ýmislegt þessa dagana, keypti plötuna Mineur Aggressif með Kimono og er bara mjög hrifinn af þessari dimmu, lágstemmdu plötu. Síðan tók ég mig til og fór loksins að hlusta á Hunting for Happiness með Diktu, sem er vægast sagt helvíti góð rokk plata.

Annars hef ég verið veikur eiginlega alla þessa viku og bróðurpart síðustu, og milli þess að vinna og hlusta á tónlist varla haft orku til eins né neins. 


Shadow Parade og Telepathetics 19. apríl

Síðastliðinn miðvikudag skellti ég mér á tónleika á Gauknum. Aðal ástæða farar minnar var áhugi minn á hljómsveit sem heitir Shadow Parade, en hljómsveitin vildi bæta mér við á MySpace í haust -- og eins og yfirleitt þegar það gerist, þá ákvað ég að hlusta á efnið þeirra, og ef mér líkar vel, þá samþykki ég beiðnina, eingöngu til að fleiri rekist á sveitina.

Ég fór á rokk.is, þar sem þeir hafa skráð tvö lög inn, en þau eru bæði eins og þeir orða það sjálfir "lágstemmd rokklög". Ég er persónulega mjög hrifinn af báðum þessum lögum, en þau eru í grunninn róleg og melódísk en eiga samt sína spretti -- í stuttu máli sagt, fallegt, vel gert rokk.

En aftur að tónleikunum, eftir að ég hafði ákveðið að taka góðu boði Shadow Parade manna til MySpace vina sinna um að koma á tónleikana, þá komst ég að því að önnur hljómsveit sem vakið hefur svolitla athygli undanfarið, Telepathetics, voru einnig að spila, og voru þeir á undan Shadow Parade á svið. Mér fannst Telepathetics minna mig svolítið á Muse hvað varðar hraða og basic sánd, en lögin að sjálfsögðu einfaldari en Muse lög en engu að síður mjög þétt og þokkalegir sprettir á ferð, þó svo mér hafi þótt þetta örlítið of mónótónískt. Mér skilst að þeirra eigin sögn þá séu meðal þeirra helstu áhrifavalda þeir Jeff Buckley og Thom Yorke, sem ég gat nú varla merkt af tónlistinni, en það gæti sagt ýmislegt um mína vanþekkingu, sem og að þrátt fyrir að verða fyrir áhrifum þurfa hljómsveitir alls ekki að hljóma eins og áhrifavaldarnir, sem betur fer.

Ég var mjög sáttur með að heyra í Telepathetics, en sérstaklega þótti mér söngvarinn vera góður, en einnig hefur hljómsveitin flottan stíl (svartar skyrtur, hvít mjó bindi), eru góðir saman, og kæmi mér ekki á óvart ef mér líkaði betur við lögin þeirra eftir meiri hlustun. Ég veit ekki hvað það er, mögulega klæðaburður og örlítið sándið þeirra, en mér varð oft hugsað til Interpol á meðan þeir spiluðu.

Jæja, nú er komið að safaríka bitanum, Shadow Parade, en ég er algjör sökker fyrir lágstemmdu, góðu rokki, og þessi tvö lög sem ég hafði heyrt á netinu lofuðu góðu, minntu mig svolítið á eina af mínum uppáhalds hljómsveitum, The Veils. Ég get í raun lítið sagt um þessa tónleika, nema að strákarnir í Shadow Parade voru betri en ég bjóst við, og ég bjóst við mjög góðum tónleikum, þeir spiluðu nýtt (amk fyrir mér), aðeins harðara efni, og það var að virka ótrúlega vel, hörkugott rokk hér á ferð, í lokin tóku þeir svo It Grows ásamt Jenna úr Brain Police, sem var að sjálfsögðu rosalegt enda er Jenni að mínu mati einhver besti rokksöngvari Íslands, og enduðu svo showið á coveri af  Doors smellnum Love her madly, má segja að á þessum tímapunkti hafi verið orðin hörkustemning.

Ef ég skildi þá rétt var eitt lagið, Dead man's hand, spilað opinberlega í fyrsta sinn, og fannst mér talsvert varið í það, talsvert hraðara og harðara en Eyes Meet og Nothing for me, lögin tvö sem vöktu áhuga minn upprunalega, en gott rokk þar á ferð engu að síður. Mér finnst hljómsveitin minna mig talsvert á Radiohead, og getur það ekki talist annað en gott, en skv. þeim sjálfum mun Radiohead vera ein af þeirra uppáhalds hljómsveitum, sem og the Doors.

Ég fór á tónleikana með talsverðar vonir, sem veit yfirleitt ekki á gott, því vonir eru forsendur vonbrigða, sem ég varð alls alls ekki fyrir í þetta sinn, í staðinn reyndist bandið fjölhæfara og betra en ég hafði vonast til, spiluðu af öryggi og innlifun, lögin eru vel smíðuð með góðum melódíum, og nú bíð ég bara í ofvæni eftir plötu með meira efni, en þangað til reikna ég með að láta sjá mig á tónleikum með þeim reglulega.

 

Edit; misskilningur hjá mér varðandi nýtt efni, svo ég strikaði yfir það hér að ofan, hinsvegar var Beggi söngvari Shadow Parade að tjá mér að platan þeirra sé næstum tilbúin, svo ég bíð spenntur ;-)


Góðar stundir á KB í gær

Í gærkvöldi ákvað ég að kíkja á "hangover treatment" kvöldið hans Nuno á Kaffibarnum, en hann var að spila, og stóð sig bara helvíti vel, sérstaklega kætti smá reggí session hann Berg bróður minn, og var mjög skemmtileg stemmning allt kvöldið.

Uppúr lokun voru nokkrir fastagestir þarna eftir ásamt staffi í góðu spjalli, og  leyfði hann Svanur okkur að heyra mjög svo áhugaverðan disk. Diskur þessi hafði fallið í skaut hans Helga sem vann á kaffibarnum fyrir nokkrum árum, gegnum mann/kærasta vinkonu fyrrverandi konu sinnar, sá er Kanadamaður, og hafði skv. sögunni fengið þennan disk við að hreinsa út úr skáp manns sem hafði starfað með honum, eftir að sá síðarnefndi hætti.

Diskurinn er 16 lög, og samin, upptekin, og performuð af þessum óþekkta starfsmann. Sögunni fylgdi að lögin hefðu verið samin fyrir einhverja konu, og fyrstu fjögur lögin endurspegla góðu tíma sambands þeirra, og svo færir maðurinn sig út í sorglegri sálma, og ekki er hægt að dæma þetta öðruvísi en þessi diskur hafi verið stórfengleg síðasta tilraun hans til að bjarga sambandinu, eða fá hana aftur.

Tónlistarspekúlantar á svæðinu í gær voru sammála um að þetta væri talsvert stórvirki í ljósi þess að maðurinn hafði ekkert nema tilfinningar og skemmtara -- útkoman er kannski á mörkum þess að vera hlægileg, en einlægnin skín svo í gegn að erfitt er að finna ekki til með manninum og eins og allir (vonandi) vita snýst tónlist mun meira um að miðla hugmyndum og tilfinningum heldur en fullkominn performans.

Ég verð að segja að þessi saga var mjög áhugaverð, og skilst mér á Svani að í bígerð sé að gera heimildamynd um þennan disk, og finna þennan tilfinningaríka huldumann og sjá viðbrögð hans við því að tónlistin hans hafi endað á Íslandi og jafnvel fengið að óma á loftbylgjum landsins, en lög af disknum hafa verið notuð til að gjörsigra vondulagakeppni X-ins, nokkrum sinnum, og líklega fengið að óma á einhverjum fleiri börum borgarinnar líka.

Ætli hann hafi náð henni aftur með ástaróði sínum, eða er svarið við átakanlegu spurnöskri hans í síðasta laginu "Does anybody hear me cry?" flatt nei frá hennar hálfu?

Hvar/hver sem þú ert, we hear you cry man.


Mammút

Mammút - Mammút

Á fimmtudaginn fór ég á tónleika með dEUS á skemmtistaðnum Nasa. Ástæðan fyrir för minni var tvíþætt og hvorug ástæðna minna tengdist dEUS sérlega mikið, nema ef fyrir veru Mammút á þessum tónleikum má þakka smekk þeirra dEUS manna.

Ég fór að stórum hluta til að sjá Mammút, eina af mínum uppáhalds hljómsveitum síðan ég fyrst heyrði í þeim fyrir rúmu ári síðan. Hljómsveitin spilar framsækið tilraunagjarnt rokk sem getur verið svolítið pönk skotið. Mögulega vegna pönk áhrifa og stíl söngkonunnar minnir hljómsveitin mig svolítið á gamalt stöff með sykurmolunum jafnvel.

Hvað sem því líður var þessi sveit að gefa út disk að ég held hjá Smekkleysu núna á miðvikudaginn, og voru útgáfutónleikar sem ég missti af, en diskinn hef ég verið að hlusta á með mikill velþóknun, núna í þriðju umferð sinni. Sum lögin hafði ég heyrt oft áður, eins og t.d. Þeir Reyna, Gítarlagið og Miðnæturmetal, og sitja þau því mögulega betur eftir í manni en margt af hinum lögunum, en í þessari þriðju umferð hlustunar hef ég sífellt meira gaman af plötunni í heild.

Þegar ég leiði hugann að því að meðalaldur sveitarinnar er líklega í kringum 17 ár get ég ekki annað en velt því fyrir mér að þau gætu átt eftir að smíða tónlist sem mun virkilega hrista upp í veröld minni.

En aftur að plötunni, nú þegar síðasta lag plötunnar, samnefnt hljómsveitinni, Mammút ómar í eyrum mínum í þriðja sinn síðan í gær eftirmiðdag, dettur mér ekkert lag í hug sem gæti dregið þessa plötu niður, þau hafa öll eitthvað til brunns að bera, en sérstaklega eftirminnileg og skemmtileg eru hraðari lögin þeirra eins og þau sem ég nefndi hér að ofan.

Ég mæli sterklega með þessari plötu, og vona að sem flestir kaupi hana og styðji þetta unga, efnilega band til frekari stórvirkja. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband