Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Trú, trúarbrögð, hugsanir og frelsi

Ég var að lesa yfir (ekkert svo) gamla umræðu á blogginu hjá mér eftir að ég lét hörð orð falla í garð vísindakirkjunnar.

Einhverra hluta vegna (líklega þreytu) hef ég ekki svarað síðustu athugasemdinni við færsluna, en hún vakti mig engu að síður til umhugsunar núna áðan.

Þar er þeirri ágætis skoðun varpað fram að það sé tilgangslaust eða ómögulegt að aðskilja trú einstaklings og trúarbrögð -- það væri svipað og að kalla fótbolta góða hugmynd en fótboltafélög slæma. Þetta finnst mér full mikil einföldun og vildi þess vegna útskýra betur þá afstöðu mína að mér sé sama hvað hver trúir fyrir sig, en þegar fólk hópar sig saman um að trúa sama þvættingnum þá þykir mér nóg komið.

Munurinn á þessu tvennu hefur ekkert með hugmyndirnar að gera -- heldur framkvæmdina. Ég trúi því ekki að nokkur einstaklingur eigi að lesa það uppúr bók, eða éta úr munni annars hvað honum á að finnast um lífið og tilveruna, en trúarbrögð stuðla einmitt að því. Nú geta allir trúaðir menn og trúfræðingar þrætt um það eins og þeim sýnist, en það breytir því ekki að fólk sem aðhyllist trúarbrögð vill meina að það hafi rétt fyrir sér gagnvart lífinu og tilverunni, og að ég hafi rangt fyrir mér. Mjög margir söfnuðir "umbreyta" einnig fólki actively, og trúa því að það sé þeim sjálfum og hinum nýlega umbreyttu fyrir bestu.

Með því að ákveða að hafa áhrif á trú annars fólks, og reyna að heilaþvo (ég vildi að það væri til smekklegra orð fyrir þetta, en sannleikurinn er sár) það, þá er orðinn grundvallar munur á fallegri hugmynd sem einstaklingur trúir fyrir sig, og er hvorki mitt mál né nokkurs annars að setja útá þann einstakling eða hans hugmyndir, og svo skipulögðu félagi sem hefur það markmið að sannfæra alla um að trúa blint, óháð staðreyndum eða raunverulegum þáttum lífsins, á þessa sömu hugmynd.

Þess vegna lít ég á trúfélög sem öfgahópa sem er ekki sama hvað mér finnst og ég hugsa.

Fólk er svo fljótt að gleyma því hvað trúarbrögð hafa ótrúleg aðskilnaðaráhrif á heiminn, orsaka gríðarlega mikið af mannlegum hörmungum, stríð í versta falli.

Ég heyrði afskaplega vel mælta setningu frá einum trúleysingja eitt sinn, en hann sagði "Organized religion is a dangerous luxury we cannot afford if we want to survive in harmony, and avoid extinction".

Varðandi samlíkinguna við fótbolta og fótboltafélög, þá væri hún nákvæmari ef fótboltafélög væru þekkt fyrir að heilaþvo fólk, féfletta það, og myrða þá sem aðhyllast ekki félagið. Reyndar við nánari athugun á hegðun margra fótboltabullna þá gæti verið að fótboltafélög séu mun verri hugmynd en fótbolti.

Til skýringar þá flokka ég mig ekki í neinn tiltekinn hóp eins og t.d. atheists eða agnostics, eða annað slíkt, veit varla hver er munurinn á þeim öllum. Ég er bara venjulegur maður sem hætti að trúa á jesú rétt eins og jólasveininn, og var svo heppinn að eiga foreldra sem leyfðu mér að velja sjálfur hvort ég vildi vera skírður og hluti af þjóðkirkjunni. Ég held það sé margt óútskýrt og óvitað í heiminum okkar, og vísindin mjög stutt á veg komin með að kanna hann, en ég sé enga ástæðu til að deila frekar mínum þvættingi með öðrum ;-) ... það gæti bara endað illa.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband