29.8.2006 | 14:11
Tveir draumar
Ef ég sef í stuttan tíma man ég ávallt það sem mig dreymir -- með mismiklum smáatriðum. En man þó alltaf eitthvað.
Í gær var ég afskaplega þreyttur þegar ég fór heim í hádeginu, og sofnaði á sófanum, og dreymdi þá afskaplega áhugaverðan draum. Ég vakna upp (í draumnum), og tek eftir því hvað það er eitthvað hráslagalegt og kalt inni hjá mér. Ég ákveð að athuga hvort útidyrahurðin sé nokkuð opin -- sem hún er, og einhver óprúttinn einstaklingur stendur í dyrunum, og gægjist inn. Ég öskra á viðkomandi í klassískri morgunúrillsku "HVAÐ ERTU AÐ GERA? DRULLASTU ÚT!". Kauði hinsvegar lætur þetta ekkert á sig fá, horfir ekki í augun á mér, og stígur inn fyrir. Nú er mér nóg boðið, hrindi þessu aðskotadýri útúr húsinu mínu, sný mér svo við og næ í hamarinn minn, geng út og sé gutta standa þar ásamt 2 öðrum. Iss, bara þrír hugsa ég, og segi þeim að drulla sér burt ella ég og Hamar munum ganga frá þeim. Mennirnir þrír fara, en virðast ekki sérlega óttaslegnir. Ég er pirraður.
Ég kem inn, og sé afhverju þessi maður horfði framhjá mér þegar ég skipaði honum að fara. Húsið mitt var sumsé að hrynja. Þakið hálf hrunið, og aftakaveðrið úti var að feykja vatni og drasli um allt. Ég hleyp út -- sé þá að ég er ekki í neinum buxum, og fatta skyndilega að tölvurnar mínar eru þarna inni -- í hrynjandi húsinu -- og ég verð að bjarga þessu. Ég hringi í pabba, og bróðir minn svarar í símann, og virðist eitthvað óuppveðraður yfir þessu öllu saman, fellst loksins með semingi á að koma og hjálpa mér;
Bróðir: "Jæja, ok, ég get svo sem alveg komið"
Ég: "JÁ KOMDU NÚNA HÚSIÐ MITT ER AÐ FOKKING HRYNJA!"
Bróðir: "jájá, rólegur"
Ég: "RÓLEGUR?! DRULLASTU HINGAÐ!!!" -- og skelli á.
Bróðir minn mætir á svæðið, og við förum inn og náum í tölvurnar mínar (vinnugögn, osfrv), og ég reikna með því að ég hafi farið í buxur, því ég varð ekki var við að vera buxnalaus í afgangi draumsins. Við röltum svo eitthvað upp með götunni, í örvæntingu -- og á þessum tímapunkti hefði ég kannski átt að gera mér grein fyrir því að þetta væri draumur -- því að A) húsið mitt var talsvert frábrugðið því sem það er í raunveruleikanum B) gatan sem ég var á var allt allt öðruvísi en litla gatan mín C) engum datt í hug að hringja á slökkviliðið.
Mér líður eitthvað skringilega að vera frá húsinu mínu í þessu ástandi, og rölti aftur að því, og mér til mikillar furðu og reiði sé ég eitthvað helvítis pakk vera inní húsinu mínu, og ósvífnin er slík að fólk er labbandi inn í það gegnum einn útvegginn sem er hálf hruninn. Ég fer inn í húsið, sem er mjög óstöðugt allt saman, og gólfið virðist vera að gefa sig líka, fyrst til að reyna að segja þessu fólki að hypja sig út svo það drepist ekki. Þegar ég sé hinsvegar að þetta lið er upptekið við að gramsa í dótinu mínu og stela, þá missi ég alla stjórn á mér, og fer að henda því út með hörku -- gríp t.d. einhverja krakka sem voru að stela sígarettum og áfengi, hendi einni konu út á hárinu, svo hún skellur með höfuðið í jörðina, og miðað við hljóðið hélt ég að hún væri dauð. En svo stynur hún upp "Hefðir alveg getað beðið mig bara að fara--ahh" .. var greinilega ekki alveg dauð. Á meðan er eitthvað af fólki að fara út friðsamlega, og bróðir minn stendur við gatið í veggnum, að aðstoða það út.
Ég sný mér aftur inn í húsið, og sé að þrátt fyrir allar tilraunir mínar til að henda þessu pakki út, á ég langt í land, og hefur eitthvað fólk tekið sig til við að flokka dótið mitt -- til að selja það, no less! Nú gjörsamlega brjálast ég, kasta stól í vegg fyrir ofan eina "sölukonuna", verð fyrir dálitlum vonbrigðum með kraftleysi kastsins míns, og öskra á þau að drulla sér út. Ég er hrifinn af orðinu drulla. Nú er kominn tími á fantabrögð hugsa ég, og byrja einfaldlega að lúberja allt fólk sem ég kem höndum á, lemja fyrst, henda út svo. Þess má geta að á meðan þessu stendur er gólfið allt hið óstöðugusta, og ég tek eftir því hvað öll mín högg eru máttlaus -- samt virðist þetta skipta engu máli, fólk fellur eins og keilur.
Nú breytist sagan skyndilega, fram á sviðið stekkur ljóshærð stúlka sem kallar á mig að nú sé drottnun minni lokið, því hún sé "nefnilega líka massi". Ég hlæ að henni, og þegar hún reynir eitthvað að fella mig, dusta ég hana af mér eins og flugu -- í hvert skipti sem ég geri það brosir hún bara og hlær jafnvel, og talar eitthvað við mig eins og hún sé að gefa mér undir fótinn. Þetta er mjög afbrigðilegt. Á endanum dettur hún niður á magann, og segir í uppgjafartón, með bros á vör, "ég er þó allavega með stinnari rass en þú" -- á þeim tímapunkti horfi ég á rassinn á henni og hugsa að hún hefði átt að vera í þrengri buxum. Hún spennir á sér rassinn, og ég get ekki annað en hlegið, "hva viltu að ég grípi í hann eða?" -- svo skyndilega heyri ég eitthvað aðskotahljóð.
Ég rís upp á sófanum mínum, lít strax að brotna útveggnum, og hugsa "Hmm.. veggurinn er heill.. nei mig var bara að dreyma.. hvaða pirrandi hljóð er þetta? Ahhh síminn".
Ég held ég hafi gleymt litlu síðan í gær, en þetta verður að teljast einn skringilegri draumur sem mig hefur dreymt.
-- Ég ætlaði að hafa þetta um tvö drauma, en mig dreymdi annan mjög skringilegan í morgun, en ég verð að geyma hann aðeins, er eiginlega orðinn ritmóður.
Athugasemdir
LOL þvílíkur draumur maður :)
bubbi (IP-tala skráð) 29.8.2006 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.