Framfarir, pirringur og innantómt blaður

Nú kem ég heim til Íslands á morgun eftir mánuð hér í útlandinu. Margt áhugavert á daga mína drifið svo sem, þar á meðal hef ég komist að því hvað það þýðir að vera "úgglendingur" -- Ég tala ekki þýsku, og xenofóbísk hægristefna er sterkari hér í Austurríki en gerist og gengur í Evrópu.

Sérstaklega hef ég fengið að kenna á úgglendi mínu í samskiptum við símafyrirtækið A1, sem er í eigu Vodafone. Hjálparlínan hefur verið sérstaklega hjálpleg, t.a.m. skellt á mig þegar ég spyr hvort viðkomandi tali ensku (eftir að hafa sérstaklega valið að fá samband við enskumælandi fulltrúa), eða gengið svo langt á að æpa á mig að ég eigi einfaldlega að fara í búðina þar sem ég keypti áskriftina mína og tala við fólkið þar. Ég vona að fólk á Íslandi sem talar ekki íslensku þurfi ekki að sæta svona meðferð.

Varðandi framfarir, þá er ég enn að reyna að finna mér herbergi til að búa í svona fyrst um sinn, og gengur ekki mjög vel, hverjar ástæðurnar gætu verið hingað til er ég ekki alveg viss, en ég veit að mér var neitað a.m.k. einu sinni því ég tala ekki þýsku, og í hin skiptin reikna ég með að eitthvað svipað óöryggi hafi verið uppá teningnum. Hinsvegar er ég vongóður um að finna herbergi í seinnihluta þessa mánaðar, en ég skoðaði eitt í gær sem var á góðu verði í frábærri íbúð (og mér sýndist íbúum líka mjög vel við mig), einnig fer ég og skoða annað núna á eftir.

Ég gerði mér ferð í síðustu viku til að skoða líkamsræktarstöð, og var það frekar niðurdrepandi upplifun, þar sem í fyrsta lagi var svo ógeðslega mikið af mönnum (ég nota orðið lauslega) að lyfta (nota orðið lauslega), og virtust flestir klipptir útúr Abercrombie & Fitch bæklingi, eða með öðrum orðum, ræfilslegir, heltanaðir metróar. Ég sakna satt best að segja gömlu góðu daganna í Gym 80, þar sem hlaupabrettin voru lúin, járnið ryðgað, en almennur andi stöðvarinnar margtumfalt betri en greinilega gengur og gerist. Þangað fóru menn til að ýta sér útá ystu nöf, etja kappi við þyngdaraflið og frumefnin, og maður naut þess heiðurs að í kringum mann voru margir kappar í heimsflokki, þar af heimsmeistarar og methafar, og enginn yfir það hafinn að rétta byrjanda eins og mér hjálparhönd.

Smá sólarglætu má þó nema í ástandi mínu hér, en ég er búinn að finna fjölmarga staði þar sem ég get stundað badminton, íþrótt sem mér hefur ávallt þótt skemmtileg, og virkar sem ágætis mótvægi við lyftingarnar, en snerpa og úthald skipta öllu máli í badminton. Einnig er mikið um tennis hér -- íþrótt sem ég hef oft íhugað að prófa, en aldrei gert... fyrr en í gær!

Ég er ömurlegur í tennis. Ég hélt þetta væri eitthvað svipað og badminton, en í fyrsta lagi er talsvert flóknara að meta feril boltans, þar sem hann ferðast yfirleitt hraðar og skoppar einnig og breytir um feril, í öðru lagi þá ef maður ætlar að þrykkja honum yfir á hinn völlinn eins og maður sér í sjónvarpinu, þá þeytist hann yfirleitt eitthvert útí geim, ef möguleiki er. Meirihluta tímans í gær var eytt í uppgjafir, og undir lokin ákváðum við að reyna bara að láta þetta ganga, rólega, svona til að æfa sig í að slá boltann án þess að hann fari til næsta sólkerfis.

Ég get hinsvegar ekki sagt annað en að mig hlakki mikið til að koma til Íslands, mörg mál þar sem frá þarf að ganga, og svo sakna ég auðvitað hennar Hildar meira en orð fá lýst. Þegar ég kem heim á morgun verður sléttur mánuður, skv. dagsetningum, frá því ég fór frá Íslandi, og sagði skilið við lífið eins og það var (og það var ansi gott, sýnist mér í baksýnisspeglinum). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Skemmtileg skrif, takk fyrir :)

Ester Sveinbjarnardóttir, 14.2.2007 kl. 11:53

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Takk fyrir það Ester :-)

Steinn E. Sigurðarson, 14.2.2007 kl. 12:03

3 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Hahahaha... álpaðist hingað inn af annarri síðu og verð að segja að ég er kát. Hef mikið hlegið að færslunum þínum, frábær penni! 

Hvörslags hjálparlína var þetta eiginlega? Össss...  

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 19.2.2007 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband