blog.is komið í loftið, allt að gerast

Já, nú má segja að smá reynsla sé að komast á kerfið hérna á blog.is, en fyrir áhugasama þá er líklega rúmt ár síðan hugmyndin kviknaði, og vinna hófst í haust. Hönnun kerfisins er svolítið stærri og flóknari en núverandi mynd þessi gefur til kynna, en vonandi tekst að bæta virkni við kerfið næstu vikurnar svo notendur þess fái að sjá það í fullri útgáfu sem fyrst.

 Nú er það vinna við blaðberavefinn sem tekur við hjá mér, taumlaus gleði þar á ferð, en ég ætla að reyna að harka þetta af í vikunni, reikna ekki með að mínir nánustu sjái mig mikið -- ef frátaldir eru  samstarfsmenn mínir Baldur og Henrý, sem vinna svipað mikið eða meira en ég. Já, hvernig er komið fyrir manni þegar samstarfsmenn eru að verða manns nánustu, þetta er kannski eitthvað sem ég hefði átt að spyrja mig að fyrir 3-4 árum, þegar ég tók mín fyrstu skref í átt að vinnualkóhólisma, sem þrátt fyrir aðlaðandi nafn þýðir ekki að maður fái að vera fullur í vinnunni.

Því er skemmst frá að segja að í gær fór ég í sýrustigs mælingu í maga og vélinda, það hljómar kannski ekki sérlega innræsið svo þetta gæti komið einhverjum á óvart. Fyrst var sprautað einhverju deyfandi geli uppí nös að mínu vali, og fyrir tilviljun valdi ég þá vinstri (læknirinn ákvað að ég hlyti þá að vera vinstrimaður, athugull maður). Þegar nösin var orðin stútfull af þessu geli var mér einfaldlega sagt að sjúga uppí nefið og kyngja. Að sjálfsögðu var gelið beiskt, og sveið undan því, þar til ég var svo dofinn að ég fann ekki fyrir vélindanu á mér, og allar taugar í hálsinum sögðu mér að ég væri ófær um að kyngja. Þá var rekin slanga uppí nefið, og niður í maga, og gerðar mælingar yfir ca. 15 mínútna tímabil, meðan slangan var dregin út sentimeter fyrir sentimeter.

Nú myndu sumir segja að mælingunni væri lokið, en þetta var aðeins fyrsta atlagan að aumingja vinstri nösinni, því ég gekk út af meltingarsjúkdómadeildinni með klæddan vír neðan úr maga útum nefið, límdan á þremur stöðum við höfuð, háls og nef. Vírinn var svo tengdur við ágætis tækjahlunk sem ég þurfti að hafa utan á mér næstu 24 klst, og gjöra svo vel að ýta á takka ef ég hugðist leggjast niður, eða borða eitthvað. Í morgun þegar ég fór og lét fjarlægja þetta apparat var slímhúðin í nefholi og hálsi orðin frekar ert, og leið mér eins og ég væri með slæma hálsbólgu -- fyrir utan hvernig glápt var á mig þegar ég kyngdi einhverju og togaðist í nefið á mér.

Það eina góða sem uppúr þessu fékkst er líklega hvernig nágrannakona mín (sem hatar mig) horfði á mig þegar ég sat inní bíl í gær að reyna að komast af stað, en af svip hennar mátti merkja eftirsjá yfir því að hegða sér alltaf eins og algjör tík við mig, og nöldra yfir mestu smáatriðum við hvert tækifæri. Já, sumir nágrannar mínir hata mig enn síðan ég (tilneyddur) hélt 2 óstjórnlega, óþolandi hunda ásamt fyrrverandi kærustu minni, að hennar frumkvæði. Kæru nágrannar ef þið eruð að lesa þetta, þá var það *ég* sem þurfti að þrífa eftir þessa hunda, og þoldi þá ekkert meira en þið, og ef ég væri aðeins meiri aumingi en ég er, væru þessir hundar þarna enn.. svo hættið þessu nöldri.

Vonandi fæ ég möguleika á næstu vikum til að gera þessa blog síðu aðeins veglegri, og nota hana sem samskiptatól til að ná næsta áfanga mínum í að fjarlægjast fólkið í kringum mig -- ekki hringja, lestu bara bloggið ... hljómar þetta ekki vel?

Adieu.. glöggir lesendur sem rákust á nýyrði í færslu þessari, mega benda á það í athugasemdum ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristinsson

ahemm.... "innræsið"?

Baldur Kristinsson, 4.4.2006 kl. 14:46

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Mikið rétt, "innræsið" nota ég í sama skilningi og "invasive".

Steinn E. Sigurðarson, 4.4.2006 kl. 15:11

3 identicon

skemmtileg lýsing...fær mann til að passa upp á meltingafærin sín...havrar eða hafrar hvort heldur sem er...
Gaman að lesa þetta Steinn.

kv.

Arnar Thor Fyrrum support og núverandi in need of Support

arnarthor (IP-tala skráð) 4.4.2006 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband