Líkn (og útgáfutónleikar)

Um daginn hélt hljómsveitin Líkn útgáfutónleika sína á tónleikastaðnum Organ, og sem samstarfsmaður Varða í Andrými var ég að sjálfsögðu á svæðinu þeim til halds og trausts.

Ég verð að viðurkenna að eftirvænting mín var afskaplega mikil, en bakvið Líkn er flókin saga sem ég hef séð að hafði talsverð áhrif á vin minn hann Varða, og þegar hann tjáði mér í vor að þeir væru að byrja að spila aftur vöknuðu blendnar tilfinningar. Bandið hafði nefnilega flosnað upp stuttu eftir upptökur og hljóðblöndun síðustu plötu, 2004-2005, vegna einhverja samstarfsörðugleika fékk ég á tilfinninguna, og var það mjög leiðinleg reynsla fyrir Varða, en hann talaði oft um hversu frábært hefði verið að spila með þeim, þrátt fyrir að vera ekki sáttur við þá stefnu sem platan tók.

Ég var ekki svo hrifinn af plötunni þegar ég heyrði hana fyrst fyrir svona einu og hálfu ári -- það voru vissulega góðir kaflar þarna inn á milli, og formúlan var þess efnis að hún ætti að virka fyrir mig, djassskotið rokk með industrial áhrifum, en það var eitthvað of langdregið þarna fannst mér. Of langt á milli sterku kaflanna, og kannski fulllangir fíngerðir kaflar sem voru ekki áhugaverðir við fyrstu sýn. Eftir meiri hlustun óx hún á mér, en er samt eiginlega of róleg fyrir mig.

Ef ég miðaði þetta við efni sem Varði spilaði fyrir mig af sólóplötu sem hann var að vinna í á þessum tíma, þá fannst mér það mun kraftmeira og áhugaverðara. Auðvitað á þessum tíma var Líkn ekki virkt band, og ég hafði ekki tækifæri til að hlusta á þá live, en ég heyrði einhverjar live upptökur, og það var eins og gjörólíkt band! Tónlistin beinlínis ólgaði af krafti og tilfinningum, sem mér fannst vanta í pródúseruðu plötunni.

Þegar Varði sagði mér að hann hefði tekið saman við Binna og Nonna til að endurvekja Líkn fylltist ég vissulega eftirvæntingar, og vonaði að þeir væru jafngóðir eða betri en þær live upptökur sem ég hafði heyrt. Áhugi minn jókst enn meira þegar ég fékk að heyra ómixuð lög sem þeir tóku upp fyrir ca 3 vikum á Húsavík, fyrir nýja plötu, en besta leiðin til að lýsa fyrstu hlustun minni á þau lög er að ég fékk gæsahúð oft og mörgum sinnum. Orðið tilhlökkun er alltof hógvært fyrir tilfinningar mínar gagnvart þeirri plötu.

Af þessu blaðri mínu að dæma þá gekk ég greinilega ekki alveg óundirbúinn inn á þessa tónleika. Ég hafði í raun miklar væntingar, og ég varð ekki fyrir vonbrigðum! Ég vildi óska þess að einhverjir prentmiðlar hefðu verið með fulltrúa á svæðinu til að geta fjallað um tónleikana frá óháðum útgangspunkti, sem ég hef því miður ekki, en í stuttu máli sagt var sándið frábært, tilfinningarnar og krafturinn í hámarki. Fyrstu 3 lögin ca. voru tekin án bassaleikara, þar sem session bassaleikaranum, Valda Kolla, seinkaði örlítið. Nonni er frábær trommari, ótrúlega nákvæmur og hvert einasta högg var afgreitt með hárréttum hraða, og hélt grúvinu í gegnum industrial sýrusprengda gítarnoisið þeirra Varða og Binna algjörlega, hvernig þeim tekst að flétta melódíunum inní þennan hávaða finnst mér torskilið, en það virkar og það heillar. Þegar Valdi bættist í leikinn þéttist sándið auðvitað meira og grúvið styrktist líka. Ólíkt plötunni var minna af tilraunastarfsemi á tónleikunum, lágu kaflarnir fyrir breakin styttri og lögin í raun styttri og þéttari. Ég reikna með að það stafi af öðru ryþma sectioni, og af áhorfendum að dæma á meðan og eftir er þessi samsetning þeirra þremenninga hárrétt.

Hljóðkerfið á Organ er greinilega mjög gott og með Sigga úr Hjálmum á mixernum og hljóðnemunum var við því að búast að þetta myndi hljóma vel, og það gerði það. Í rauninni er algjör synd að ég skildi ekki hafa reddað mér hljóðnemapari til að taka þetta upp, svo gestir bloggsins gætu fengið að hlusta, því ég er hálf orðlaus.

Ég fæ hálfgerðan aulahroll við að skrifa þetta, því ég hef í raun ekkert neikvætt að segja, en staðreyndin er sú að ég er líklega ekki einn um að vera ánægður, þar sem eftir tónleikana voru fjölmargir sem sögðust aldrei hafa heyrt hvorki Líkn né Varða betri live.

En hey, ég er auðvitað ekkert hlutlaus, svo ég hvet fólk bara til að mæta á tónleika og hlusta sjálft, sjálfur hlakka ég til næstu tónleika, og vona að það verði tími fyrir slíka áður en Varði heldur til NY til að taka masterinn í tónsmíðum..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband