Hvað er hryðjuverkamaður?

Það er mjög áhugavert hvernig okkur Íslendingum hefur tekist að gera okkur mat og píslarvottun úr merkimiðanum "hryðjuverkalög". Áður en lengra er haldið er best að taka fram að ég er sammála því að aðför breskra stjórnvalda að Íslenskum fyrirtækjum, og yfirlýsingum þeirra vegna Icesave hafi verið yfirdrifin og lituð af pólitísku bakkaklóri Brúna-Garðars. Þessi leðjuslagur sem hann ákvað að draga okkur útí hefur ekki verið íslensku þjóðinni eða fjármálakerfi blíður, og má segja að þetta lúalega pólitíska bragð hans hafi virkað fyllilega á okkar kostnað. Sérstaklega er það súr staðreynd í ljósi þess að síðast þegar við vissum þá var Ísland ekki eitt af keppnisliðunum í breskum stjórnmálum.

Aftur að kjarna málsins hinsvegar, þá finnst mér ámátlegar myndir af okkur Íslendingum haldandi á skiltum eins og "Why Brown? Do we look like terrorists!?", horfandi í myndavélarnar með okkar bláu augu, fölu húð, vera einskonar samþykki á þessum móðukennda stimpli "hryðjuverkamenn". Í dag eru flestir "hryðjuverkamenn" með dökka húð, dökkt hár, brún augu, skegg og klæddir í einhver hvít föt og stundum er eitthvað köflótt hér og þar -- við vitum það varla, þeir eru svo ægilegir. Þegar maður sér slíkan mann, þá hugsar maður bara "ætli þessi sé...", og forðar sér án frekari pælinga um útlitið. Svona svipað og þegar maður sér stóra könguló, og hugsar hvort hún sé eitruð.

Auðvitað erum við fæst svona smáborgaraleg, og ég vona að flestir Íslendingar deili reiði minni yfir hinu meinta "stríði" gegn hryðjuverkum, veru okkar í NATO og stuðningi okkar við mun stærra og ógeðfelldara pólitískt bragð amerísks kollega hans Brúna. Bragð sem snýst ekki um að fólk þurfi að hætta við sólarlandaferðina eða endursemja um húsnæðislánin, heldur frelsi, lífsviðurværi og þ.a.l. mannslíf margra milljóna saklausra manna, kvenna og barna í austurlöndum nær.

Nei það er rétt að við erum víst ekki hryðjuverkamenn, en hvað eru eiginlega hryðjuverkamenn annað en stórhættulegt regnhlífarhugtak sem valdamenn "vina" okkar í NATO nota til að hræða múginn og hrifsa góða bita fyrir sig og sína.

No Mr. Brown, we aren't terrorists, and we aren't witches either.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Takk fyrir innleggið Kreppukall, ég tek strangt til orða í færslunni minni, en það er gert til að draga fram mismuninn, ekki til að gera lítið úr vandamálum þeirra Íslendinga sem þjást um þessar mundir.

Steinn E. Sigurðarson, 22.10.2008 kl. 16:12

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það var áhugavert að það kom upp á yfirborðið svona terrorisma-rasismi. Eins og hinir dökku og austrænu séu eitthvað frekar terroristar en hinir fölu og hvítu ísbúar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2008 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband