Góðar fréttir fyrir marga

Fyrir aðra skiptir þetta hinsvegar engu máli. Sumir hafa sagt skilið við séreignarhugbúnað á borð við þann sem Microsoft leigir út, og skipt yfir í frjálsan hugbúnað.

Frjáls hugbúnaður er sá hugbúnaður sem tryggir notandanum eftirfarandi grunnfrelsi:

  • Hugbúnaðinn má nota í hvað sem er
  • Hugbúnaðinn má rannsaka og breyta
  • Hugbúnaðinum má dreifa að vild 
  • Hugbúnaðinn má betrumbæta og dreifa samfélaginu til góða

Þetta er lauslega þýtt, en í grunninn til þýðir þetta að frjáls hugbúnaður er ekki bundinn þeim takmörkunum séreignahugbúnaðar, um dreifingu, rannsökun, breytingar og notkun. Þetta hefur þá skemmtilegu aukaverkun að frjáls hugbúnaður fæst í langflestum tilfellum endurgjaldslaus til niðurhals á netinu.

Í sumum tilfellum getur verið að sá frjálsi hugbúnaður sem þegar er til á vissu sviði sé ekki nægilega þróaður til að leysa vandamál einhverra stofnana, fyrirtækja eða einstaklinga, í því tilfelli er yfirleitt einfaldasta lausnin að kaupa sér séreignarhugbúnað sem leysir vandamálið. Hinsvegar er framboð á frjálsum hugbúnaði sífellt að aukast, og í dag eru margir netnotendur nú þegar að nota slíkan í formi Firefox vefvafrans, sem fengið hefur góða dóma og viðtökur vegna hraða og öryggis (þó alltaf megi gott batna). Það vill svo til að ég skrifa þessa bloggfærslu í hugbúnaðarhlaða sem telst alveg frjáls, ég er með Linux dreifinguna Ubuntu sem stýrikerfi, gluggakerfið er samsett af GNOME gluggastjóranum, ofaná X.Org gluggaþjóninum, og svo loks nota ég fyrrnefndan vafra, Firefox.

Frjáls hugbúnaður, og notkun hans, er í dag líklega stærsta baráttumál Félags um Stafrænt Frelsi á Íslandi, og mikilvægur hluti af stafrænu frelsi -- sem fæst okkar vita hvað þýðir: Stafrænt frelsi er í stuttu einfölduðu máli sama frelsi og á við um frjálsan hugbúnað, nema almennara og nær þá yfir alla stafræna hluti -- skjöl, margmiðlunarefni, rafræna samskiptastaðla, osfrv.

Í dag hef ég ekki aðeins notið þess að vinna og vafra í ókeypis, frjálsu umhverfi, heldur þurfti ég einnig að bæta við virkni í kerfi sem ég er að þróa, og gat fundið íkon sem mér var leyfilegt að nota undir svokölluðu Creative Commons leyfi, gegn því að taka fram hvaðan íkonið kemur. Myndina gat ég einnig sniðið aðeins að mínum þörfum, og gerði það með frjálsa grafíkvinnslu forritinu GIMP. Frelsið er yndislegt Grin.

Svona í lokin vil ég hrósa Microsoft fyrir þessa viðleitni sína, vonandi þetta hjálpi einhversstaðar þar sem er hart í ári, en þar sem er virkilega hart í ári þá mæli ég sterklega með því að skoða möguleika á innleiðingu frjáls hugbúnaðar -- það gæti margborgað sig. FSFÍ getur aðstoðað við það.


mbl.is Microsoft tekur stöðu með krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Zebitz

uuu svo er það náttúrulega þannig að það hafa miklu fleiri atvinnu tendru Microsoft hugbúnaði hér á landi þannig að það má ekki horfa fram hjá stóru myndinni. Snýst ekki bara um að kaupa inn ódýrt. Snýst líka um að skapa atvinnu og tala nú ekki um að skapa tekjur fyrir Íslensk fyrirtæki.

Guðmundur Zebitz, 20.11.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Bunki: Takk fyrir athugasemdina, en ég er hræddur um að ég sé ósammála þessu. Mér finnst ekki nauðsynlegt að borga erlendu stórfyrirtæki skatt til að skapa störf hér á landi, þess utan að það telst seint kostur hugbúnaðar að hann skapi vandamál og þar af leiðandi vinnu.

Einnig má benda á að mörg, ef ekki fleiri störf skapast í kringum stuðning og þróun á frjálsum hugbúnaði. Eðlismunur er hinsvegar á stórum hluta þeirrar vinnu sem skapast, þar sem lausnir þær sem þróaðar eru innanlands og byggðar á opnum grunni, geta verið aðgengilegar íslenskum almenningi og fyrirtækjum til frambúðar, endurgjaldslaust. Það er þjóðfélaginu til ávinnings að vandamál sem hægt er að leysa í eitt skipti fyrir öll séu það, en ekki sé sífellt verið að leysa þau uppá nýtt hver í sínu horni. Flest fyrirtæki landsins, og þau sem skapa mest verðmæti eru ekki hugbúnaðarfyrirtæki, og tækifæri og hagnaðarmöguleikar þeirra aukast með skilvirkari og ódýrari tölvukerfum.

Steinn E. Sigurðarson, 20.11.2008 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband