Ég er það sem ég borða..

Fyrir nokkrum árum, þá var ég orðinn (að eigin mati) feitur. Ef ég skoða myndir af mér frá 4-5 árum síðan, þegar ég var á hátindi leti minnar, þá var ég amk 20kg of þungur, og ekki af vöðvum. Nei ég var með 20kg af pizzu og coca cola, sem líkaminn hafði samviskusamlega geymt til vara, meðferðis hvert sem ég fór.

Í dag er sagan aðeins önnur, og ástæðan fyrir því frekar en hvað annað, mataræði. Árið 2002 ákvað ég að prófa mataræði sem móðir mín mælti mjög sterklega með, en þetta var á þeim tíma þekkt sem "Atkins kúrinn". Margir hafa tekið sig til og drullað hressilega yfir þetta mataræði, á þeim forsendum að þetta sé óhollt, virki ekki, maður sé alltaf svangur, eða alltaf þreyttur, osfrv. En staðreyndin er sú að ef maður trúir (sem maður ætti að gera) gamla enska máltækinu "You are what you eat", þá er auðvitað mun skynsamlegra að borða kjöt og prótein ríka fæðu frekar en kolvetnaríka.

Líkaminn er öflug græja, en hann getur ekki búið til vöðva úr sykri. Hann getur hinsvegar búið til fitu úr sykri. Þegar ég prófaði Atkins kúrinn, þá borðaði ég ekkert brauð, ekkert pasta, engar kartöflur, engin hrísgrjón, engan sykur, í einn mánuð, þess í stað borðaði ég mikið af skyri, eggjum, beikoni, kjúklingi, kjöti af allskyns gerðum, grænmeti, og ostum. Á þessum mánuði gerði ég lítið nema vinna (að mestu leiti heiman frá mér), og borða -- ég borðaði eins og mig lysti, var með byrgðir af öllu sem ég mátti borða og hakkaði í mig fyrrgreinda fæðu, og drakk pepsi max (ég var forfallinn kókisti fyrir þetta átak mitt). Ég missti 11kg á þessum mánuði, án þess að reyna það, því ég tók þetta alls ekki alvarlega, hélt þetta myndi auðvitað ekkert virka, matur er matur, hitaeining er hitaeining, osfrv. Vá hvað ég hafði rangt fyrir mér.

Eftir þetta hafði ég bara í huga að borða minni franskar og sjaldnar pizzu, og fyrir utan einhver leti tímabil þá borða ég lítið sælgæti, og mér finnst sykrað kók vont í dag. Svo fyrir ca. ári síðan ákvað ég að taka mig almennilega í gegn, ég var svo sem alveg sáttur við sjálfan mig eins og ég var, nema ég saknaði þess að vera í góðu formi líkamlega, eins og ég var á yngri árum þegar maður stundaði íþróttir, og mig langaði til að losna við kannski svona 3-4kg af bjórbumbu.

Að sjálfsögðu, eftir reynslu mína af breyttu mataræði, ákvað ég að rannsaka líka áhrif næringar á heilsu, og hvort ég gæti komist í betra form hraðar ef ég bætti mataræðið enn frekar. Svo ég fór á netið og las mér aðeins til um næringu -- áður en ég vissi af var ég kominn djúpt í bæði pælingar úthaldsíþróttamanna sem og kraftlyftingamanna. Lykillinn að þessu öllu virtist vera blanda af próteini, góðri fitu, og flóknum kolvetnum þegar brennsla er í gangi.

Svo þetta er spurning um hlutföll, til að bæta við sig vöðvamassa (sem er fínt upp að vissu marki) þarf maður að borða alveg ótrúlega mikið prótein, eða fyrir mann eins og mig, sem er tæp 90kg, uppundir 200g af hreinu próteini á dag. Við slíka inntöku komst ég að því að ég hafði varla pláss fyrir neitt annað, ég drakk kannski 2-3 skyrdrykki á dag, sem eru 40-60g af próteini, svo fékk maður sér kannski einn heavy special, sem eru svona 50g í viðbót, og svo var ég farinn að blanda mysuprótein í vatn á kvöldin til að reyna að ná þessum 200g. Ég hugsaði ekkert um hitaeiningar, og hef aldrei gert.

Án þess að reyna það var ég kominn á mjög svipað mataræði og Atkins kúrinn. Þetta fannst mér frekar fyndin tilviljun. Árangurinn lét ekki á sér standa, eftir svona mánuð af því að gera ekkert nema borða prótein, hlaupa nokkra kílómetra svona 3-4 sinnum í viku, og taka armbeygjur, bolbeygjur, og upplyftur heima hjá mér, var ég strax orðinn miklu hressari, hafði grennst, og samt bætt á mig vöðvamassa.

Rannsóknir mínar á netinu (takk wikipedia) höfðu leitt ýmislegt í ljós, til að mynda að rétt næring snýst mikið um hlutföll, og í daglegu mataræði fólks er yfirleitt of hátt hlutfall af kolvetnum, og oft sláandi hátt hlutfall þeirra hvítur sykur. Nú spyrja kannski sumir; Ok, ef maður er að reyna að bæta sig þá skiptir þetta kannski máli, en ef maður vill bara vera eins og maður er, getur maður ekki bara lifað á hverju sem er, svo lengi sem maður borðar ekki of margar kaloríur? Mitt svar við þessari spurningu er að það sé vissulega hægt að komast af á hitaeiningunum sama hvað maður borðar, en matur snýst um næringu ekki hitaeiningar.

Mikill misskilningur ríkir um tilgang þess að borða finnst mér, en í matnum okkar er ekki bara eldsneyti fyrir líkamann, heldur einnig efni sem líkaminn notar í líkamsstarfsemi, t.d. prótein til að byggja upp vefi líkamans, svo sem vöðva og líffæri, einnig er þar að finna vítamín og fitusýrur, og hundruði mismunandi efna sem eru notuð til að halda okkur gangandi; hreinsa út eitur, eða framleiða boðefni, osfrv. Ef fæðan manns inniheldur bara orkuna til að halda sér vakandi og gangandi, en ekki næringarefnin til að líkaminn starfi rétt, þá verður maður að sjálfsögðu slappur á endanum.

Í dag reyni ég að passa uppá að borða ekki máltíð þar sem ekki er helst 50% eða meira af henni í formi próteina, og það hlýtur að vera að virka, þar sem þrátt fyrir mikla leti og hreyfingarleysi í haust eftir meiðsl, slitróttar æfingar undanfarna 4-5 mánuði, og mikla drykkju, þá hefur bjórbumban ekki reynt comeback -- þetta verður samt líklega erfiðara eftir því sem maður færist nær gröfinni.

Ég borða kjöt, því ég vil vera kjöt, en ekki brauð ;-) 

Vonandi mun þetta blaður mitt hressa og kæta.


Góðar stundir á KB í gær

Í gærkvöldi ákvað ég að kíkja á "hangover treatment" kvöldið hans Nuno á Kaffibarnum, en hann var að spila, og stóð sig bara helvíti vel, sérstaklega kætti smá reggí session hann Berg bróður minn, og var mjög skemmtileg stemmning allt kvöldið.

Uppúr lokun voru nokkrir fastagestir þarna eftir ásamt staffi í góðu spjalli, og  leyfði hann Svanur okkur að heyra mjög svo áhugaverðan disk. Diskur þessi hafði fallið í skaut hans Helga sem vann á kaffibarnum fyrir nokkrum árum, gegnum mann/kærasta vinkonu fyrrverandi konu sinnar, sá er Kanadamaður, og hafði skv. sögunni fengið þennan disk við að hreinsa út úr skáp manns sem hafði starfað með honum, eftir að sá síðarnefndi hætti.

Diskurinn er 16 lög, og samin, upptekin, og performuð af þessum óþekkta starfsmann. Sögunni fylgdi að lögin hefðu verið samin fyrir einhverja konu, og fyrstu fjögur lögin endurspegla góðu tíma sambands þeirra, og svo færir maðurinn sig út í sorglegri sálma, og ekki er hægt að dæma þetta öðruvísi en þessi diskur hafi verið stórfengleg síðasta tilraun hans til að bjarga sambandinu, eða fá hana aftur.

Tónlistarspekúlantar á svæðinu í gær voru sammála um að þetta væri talsvert stórvirki í ljósi þess að maðurinn hafði ekkert nema tilfinningar og skemmtara -- útkoman er kannski á mörkum þess að vera hlægileg, en einlægnin skín svo í gegn að erfitt er að finna ekki til með manninum og eins og allir (vonandi) vita snýst tónlist mun meira um að miðla hugmyndum og tilfinningum heldur en fullkominn performans.

Ég verð að segja að þessi saga var mjög áhugaverð, og skilst mér á Svani að í bígerð sé að gera heimildamynd um þennan disk, og finna þennan tilfinningaríka huldumann og sjá viðbrögð hans við því að tónlistin hans hafi endað á Íslandi og jafnvel fengið að óma á loftbylgjum landsins, en lög af disknum hafa verið notuð til að gjörsigra vondulagakeppni X-ins, nokkrum sinnum, og líklega fengið að óma á einhverjum fleiri börum borgarinnar líka.

Ætli hann hafi náð henni aftur með ástaróði sínum, eða er svarið við átakanlegu spurnöskri hans í síðasta laginu "Does anybody hear me cry?" flatt nei frá hennar hálfu?

Hvar/hver sem þú ert, we hear you cry man.


Mammút

Mammút - Mammút

Á fimmtudaginn fór ég á tónleika með dEUS á skemmtistaðnum Nasa. Ástæðan fyrir för minni var tvíþætt og hvorug ástæðna minna tengdist dEUS sérlega mikið, nema ef fyrir veru Mammút á þessum tónleikum má þakka smekk þeirra dEUS manna.

Ég fór að stórum hluta til að sjá Mammút, eina af mínum uppáhalds hljómsveitum síðan ég fyrst heyrði í þeim fyrir rúmu ári síðan. Hljómsveitin spilar framsækið tilraunagjarnt rokk sem getur verið svolítið pönk skotið. Mögulega vegna pönk áhrifa og stíl söngkonunnar minnir hljómsveitin mig svolítið á gamalt stöff með sykurmolunum jafnvel.

Hvað sem því líður var þessi sveit að gefa út disk að ég held hjá Smekkleysu núna á miðvikudaginn, og voru útgáfutónleikar sem ég missti af, en diskinn hef ég verið að hlusta á með mikill velþóknun, núna í þriðju umferð sinni. Sum lögin hafði ég heyrt oft áður, eins og t.d. Þeir Reyna, Gítarlagið og Miðnæturmetal, og sitja þau því mögulega betur eftir í manni en margt af hinum lögunum, en í þessari þriðju umferð hlustunar hef ég sífellt meira gaman af plötunni í heild.

Þegar ég leiði hugann að því að meðalaldur sveitarinnar er líklega í kringum 17 ár get ég ekki annað en velt því fyrir mér að þau gætu átt eftir að smíða tónlist sem mun virkilega hrista upp í veröld minni.

En aftur að plötunni, nú þegar síðasta lag plötunnar, samnefnt hljómsveitinni, Mammút ómar í eyrum mínum í þriðja sinn síðan í gær eftirmiðdag, dettur mér ekkert lag í hug sem gæti dregið þessa plötu niður, þau hafa öll eitthvað til brunns að bera, en sérstaklega eftirminnileg og skemmtileg eru hraðari lögin þeirra eins og þau sem ég nefndi hér að ofan.

Ég mæli sterklega með þessari plötu, og vona að sem flestir kaupi hana og styðji þetta unga, efnilega band til frekari stórvirkja. 


blog.is komið í loftið, allt að gerast

Já, nú má segja að smá reynsla sé að komast á kerfið hérna á blog.is, en fyrir áhugasama þá er líklega rúmt ár síðan hugmyndin kviknaði, og vinna hófst í haust. Hönnun kerfisins er svolítið stærri og flóknari en núverandi mynd þessi gefur til kynna, en vonandi tekst að bæta virkni við kerfið næstu vikurnar svo notendur þess fái að sjá það í fullri útgáfu sem fyrst.

 Nú er það vinna við blaðberavefinn sem tekur við hjá mér, taumlaus gleði þar á ferð, en ég ætla að reyna að harka þetta af í vikunni, reikna ekki með að mínir nánustu sjái mig mikið -- ef frátaldir eru  samstarfsmenn mínir Baldur og Henrý, sem vinna svipað mikið eða meira en ég. Já, hvernig er komið fyrir manni þegar samstarfsmenn eru að verða manns nánustu, þetta er kannski eitthvað sem ég hefði átt að spyrja mig að fyrir 3-4 árum, þegar ég tók mín fyrstu skref í átt að vinnualkóhólisma, sem þrátt fyrir aðlaðandi nafn þýðir ekki að maður fái að vera fullur í vinnunni.

Því er skemmst frá að segja að í gær fór ég í sýrustigs mælingu í maga og vélinda, það hljómar kannski ekki sérlega innræsið svo þetta gæti komið einhverjum á óvart. Fyrst var sprautað einhverju deyfandi geli uppí nös að mínu vali, og fyrir tilviljun valdi ég þá vinstri (læknirinn ákvað að ég hlyti þá að vera vinstrimaður, athugull maður). Þegar nösin var orðin stútfull af þessu geli var mér einfaldlega sagt að sjúga uppí nefið og kyngja. Að sjálfsögðu var gelið beiskt, og sveið undan því, þar til ég var svo dofinn að ég fann ekki fyrir vélindanu á mér, og allar taugar í hálsinum sögðu mér að ég væri ófær um að kyngja. Þá var rekin slanga uppí nefið, og niður í maga, og gerðar mælingar yfir ca. 15 mínútna tímabil, meðan slangan var dregin út sentimeter fyrir sentimeter.

Nú myndu sumir segja að mælingunni væri lokið, en þetta var aðeins fyrsta atlagan að aumingja vinstri nösinni, því ég gekk út af meltingarsjúkdómadeildinni með klæddan vír neðan úr maga útum nefið, límdan á þremur stöðum við höfuð, háls og nef. Vírinn var svo tengdur við ágætis tækjahlunk sem ég þurfti að hafa utan á mér næstu 24 klst, og gjöra svo vel að ýta á takka ef ég hugðist leggjast niður, eða borða eitthvað. Í morgun þegar ég fór og lét fjarlægja þetta apparat var slímhúðin í nefholi og hálsi orðin frekar ert, og leið mér eins og ég væri með slæma hálsbólgu -- fyrir utan hvernig glápt var á mig þegar ég kyngdi einhverju og togaðist í nefið á mér.

Það eina góða sem uppúr þessu fékkst er líklega hvernig nágrannakona mín (sem hatar mig) horfði á mig þegar ég sat inní bíl í gær að reyna að komast af stað, en af svip hennar mátti merkja eftirsjá yfir því að hegða sér alltaf eins og algjör tík við mig, og nöldra yfir mestu smáatriðum við hvert tækifæri. Já, sumir nágrannar mínir hata mig enn síðan ég (tilneyddur) hélt 2 óstjórnlega, óþolandi hunda ásamt fyrrverandi kærustu minni, að hennar frumkvæði. Kæru nágrannar ef þið eruð að lesa þetta, þá var það *ég* sem þurfti að þrífa eftir þessa hunda, og þoldi þá ekkert meira en þið, og ef ég væri aðeins meiri aumingi en ég er, væru þessir hundar þarna enn.. svo hættið þessu nöldri.

Vonandi fæ ég möguleika á næstu vikum til að gera þessa blog síðu aðeins veglegri, og nota hana sem samskiptatól til að ná næsta áfanga mínum í að fjarlægjast fólkið í kringum mig -- ekki hringja, lestu bara bloggið ... hljómar þetta ekki vel?

Adieu.. glöggir lesendur sem rákust á nýyrði í færslu þessari, mega benda á það í athugasemdum ;-)


Já, þetta heldur áfram

Völundur

Ég held áfram að prufa kerfið hérna..

 

Þessi editor er með æði fyrir paragraphs, en með shif enter má gera venjulegt break, jeij
JEIJ

úps, notaði óvart enter... nýtt paragraph! 


Íslenskt blogg..

Jæja, þá er kominn tími til að taka þátt í bloggbyltingu þeirri sem við hjá Morgunblaðinu hyggjumst ýta úr vör með þessu frábæra nýja blog kerfi. Já ég, Steinn, öðru nafni þekktur sem "the driver" á bloggi mínu fyrir hinn enskumælandi heim, thoughts of the driver.

 Á þessu bloggi hér reikna ég með að tjá mig um mál sem standa Íslandi nær, og kannski meiri áhersla á mitt einkalíf, en eins og áður verður þetta auðvitað vel flokkað svo fólki leiðist ekki of mikið ;-)

 

Annars langar mig að segja nokkur orð um þetta nýja blogkerfi, en ég veit ekki hvort orð fá því lýst hvað það er frábært, sérstaklega miðað við önnur ókeypis blogkerfi hérna heima, hann Baldur Kristinsson á hrós skilið fyrir bróðurpartinn af þeirri vinnu sem farið hefur í kerfið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband