Færsluflokkur: Bloggar
26.5.2006 | 04:13
Upprisan úr langvinnum veikindum..
Já, ég hef verið veikur undanfarinn mánuð rúmlega. Ekki fyrr en í þessari viku að ég fékk endanlegt ógeð á þessum lasleika og ákvað að fara bara alls ekkert útúr húsi nema ill nauðsyn krefðist, því þrátt fyrir að ullartrefillinn væri orðinn mér samvaxinn lét þessi veirusýking sem herjaði á háls minn ekkert á sig fá.
Nú dugði ekkert nema stórskotaárás, þykkustu sokkar sem ég átti til, bolur, peysa, ullartrefill, ullarpeysa, ullarteppi. Best að sofa í öllum fötunum líka, best að svitna þetta út bara. Þessi aðferð bar árangur, því eftir helgina og það sem af er þessari viku er ég 99% laus við þetta ógeð, þarf bara að passa að verða ekki sérlega kalt næstu vikuna eða svo, og ég verð líklega, loksins, orðinn nógu frískur til að fara út og hlaupa eða eitthvað.
Í öðrum fréttum þá virðist fátt annað komast að en yfirvofandi kosningar, og eins og venjulega eru allir of uppteknir við að leiðrétta orðróma sem hinir komu af stað, til að kynna eigin stefnumál almennilega, og til þess að kynnast stefnu flokkanna þarf virkilega að gramsa og lesa gegnum misgóðar framboðssíður.
Ég ákvað að fara og athuga hvort fleiri ástæður en frábærar auglýsingar væri fyrir því að ég myndi leggja samfylkingunni til mitt atkvæði næstkomandi laugardag, og eins og yfirleitt þegar ég skoða samskipti vinstri flokkana við þá hægri, þá sannfærist ég enn frekar um að brögð séu einhverstaðar í tafli. Eins og t.d. ásakanir sjálfstæðismanna um að borgin hafi ekkert gert til að standa við loforð sín um byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Fyrir fjórum árum var gert samkomulag við heilbrigðisráðherra um samstarf við byggingu hjúkrunarheimila, og síðan þá hefur borgin lagt til hliðar 360 milljónir og ítrekað reynt að fá ríkisstjórnina til að uppfylla sinn hluta samkomulagsins, en það gengur lítið. Enda væri nú erfiðara fyrir kallana að ná borginni ef þeir myndu hjálpa kommunum að ná markmiðum sínum og standa við kosningaloforð, það væri ekki sérlega gott fyrir flokkinn amk. Hverjum er svo sem ekki sama um gamla fólkið, eða kjósendur almennt? Ef maður er ekki við völd getur maður ekki hjálpað neinum, svo það er best að hafa völdin í fyrsta sæti, hagsmuni fólksins í öðru.. eða eitthvað.
Já samfylking, ég held þið fáið mitt atkvæði, mér einfaldlega býður við sjálfstæðisflokknum og þeirri kosningabaráttu sem þar er háð.
Skemmst er að minnast þegar ummæli Gísla Marteins í Íslandi í dag hrintu af stað einhverri móðursýki á barnalands spjallborðunum, móðursýkin finnst mér ekki hafa átt rétt á sér að vísu, en það var áhugavert hvernig hann staðhæfði ítrekað að fjármál borgarinnar væru í slæmum málum, og svo þegar hann stóð frammi fyrir rökstuðningi hinnar hliðarinnar, hvað gerðist þá? Hann vældi útúr sér,
Voðalega eru þær agressívar þessar dömur hérna ... Ég ætla svo sem ekkert að vera að tala um skuldir borgarinnar
Vá, ætlar ekkert að vera að tala um skuldir borgarinnar, þú bara varst að því? Varst að staðhæfa að fjármálin væru í rúst? Erum við kjósendur kannski ekki þeim gáfum gædd að geta skilið afhverju, eða ertu kannski ekki viss? Flestir strákar vita að þeir eiga ekki að stofna til slagsmála sem þeir geta ekki klárað, kannski Gísli litli hafi bara aldrei þurft að leggja hönd bakvið orð?
Ég átti nýlega umræðu um stjórnmál við vinkonu mína, og þegar talið barst að Gísla Marteini, sagði ég, í fúlustu alvöru, að ef hann hefði orðið næsti borgarstjóri þá hefði ég neyðst til að flytja úr landi, því ég vil búa í Reykjavík. Hún kom með áhugaverða athugasemd, "æj hann er svo mikill kútur", sem ég er alveg sammála, hann er mjög geðþekkur maður og t.d. ágætis sjónvarpspersónuleiki, en það sem ég sagði henni var einfaldlega, að hann ætti hinsvegar ekkert með að sýsla með mín mál og mína peninga, þó hann væri kútur.
Vandamálið er kannski að allir eru búnir að gleyma því hvernig ástandið var í borginni fyrir 15-20 árum, ég var t.d. aldrei meira en hálfan dag á leikskóla, og hinn helminginn hjá dagmömmu eða eitthvað. Eða þá þegar stærsta ísbúð landsins var byggð, og látin snúast. Ævintýri eins og Perlan eru ekki ókeypis, og ég persónulega kæri mig ekki um að borga næsta ævintýri borgarstjóra með áráttu, eins og Davíð Oddsson var (og er líklega enn) með.
Jæja, nóg næturhrafl, best að fara aftur að vinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2006 | 12:24
Viðurstyggð
Ég fór í gær á tónleika á Grand Rokk, var svolítið í seinni kantinum því við Varði gleymdum tímanum við leit að kínverskum black metal, því misstum við af Númer Núll, en náðum síðara bandinu, Viðurstyggð.
Þetta var frekar skemmtilegt band fannst mér, óheflað og pönkað stelpuband. Skemmtileg uppreisn þar á ferð. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína varðandi tvo upprunalegu meðlimi viðurstyggðar, þó ég hafi náð því í gær að sú sem spilar á gítar og syngur heitir Katla, því miður veit ég ekki hvað snótin sem lemur húðir í Viðurstyggð heitir, kannski einhver geti frætt mig um það?
Bassaleikara Viðurstyggðar kannaðist ég hinsvegar svolítið við, en hún Gunna er fyrrverandi bassaleikari hljómsveitarinnar Mammút sem ég bloggaði um hér ekki alls fyrir löngu. En sagan á götunni er sú að Gunna hafi hætt í Mammút því stefna bandsins sé að breytast of mikið með tilkomu plötusamnings, umboðsmanns, og svo framvegis. Þetta getur ekki talist gott. Gunna er góður bassaleikari, og hefur þetta varla verið auðveld ákvörðun.
Það verður áhugavert að heyra hvort tónlistin hjá Mammút breytist mikið í kjölfar þessa. Hún mun pottþétt breytast, það er engin spurning, en því miður þykir mér ólíklegt að hún muni breytast til hins betra :-/
Í öðrum fréttum þá er ég að hlusta á ýmislegt þessa dagana, keypti plötuna Mineur Aggressif með Kimono og er bara mjög hrifinn af þessari dimmu, lágstemmdu plötu. Síðan tók ég mig til og fór loksins að hlusta á Hunting for Happiness með Diktu, sem er vægast sagt helvíti góð rokk plata.
Annars hef ég verið veikur eiginlega alla þessa viku og bróðurpart síðustu, og milli þess að vinna og hlusta á tónlist varla haft orku til eins né neins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2006 | 20:00
Pacino boðinn í partýið?
Þetta finnst mér alveg magnað, eftir að hafa framleitt þetta hrikalega Ocean's 12 flopp, sem var líklega ekkert nema afsökun til að leyfa hollywood stjörnum að hanga saman við miðjarðarhafið í nokkra mánuði, þá vilja einhverjir borga undir Ocean's 13.
Frábært Steven Soderbergh og co, endilega haldið nokkura mánaða partý þar sem hrekkir stjarnanna geta birst undir Fólk á mbl.is, en ekki pína okkur með öðrum eins ósöltuðum hafragraut og Ocean's 12 var.
![]() |
Pacino mun leika í Ocean´s 13 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.4.2006 | 17:07
Lögreglan og upplýsingar
Mikið svakalega hefur þetta verið skemmtilegt símtal fyrir fréttamenn mbl.is;
mbl.is: Góðan dag, er eitthvað að frétta af þessum manni sem er týndur?
Lögreglan: Já, hann fannst látinn.
mbl.is: Ah, með hvaða hætti bar lát hans að?
Lögreglan: Við teljum að það hafi ekki borið að með saknæmum hætti.
*KLIKKS*
*DUUUUUUU*
Jæja, frétt er svo sem frétt, en frekar leiðinlegt að engin málsatvik hafi verið gefin upp, en flestu fólki finnst hræðilegt að heyra af láti svona ungs manns, og verður forvitið um aðstæður -- slíkt er mannlegt eðli.
Ég er a.m.k. forvitinn um hvað gerðist.
![]() |
Maður sem lýst var eftir fannst látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2006 | 10:59
Framhald sl. föstudags, og Kaffibarinn brennur
Já, ég bloggaði hérna aðeins sl. föstudag, um að ég myndi neyðast til að fara í bæinn á meðan kisa væri að róa sig. Þegar komið var á kaffibarinn var verið að taka staðinn til fyrir opnun á miðnætti, svo ég slakaði þar á með bjór og ræddi við staffið þar til opnaði.
Fred mætir á svæðið til að vera í dyrunum, og spyr hvort ég sé að vinna með honum þetta kvöld, og svarið er nei. Í ljós kemur að reiknað var með rólegu kvöldi svo hann átti að vera einn í dyrunum, ég bauðst til að hjálpa til ef þetta yrði of brjálað. Strax frá miðnætti virtist allt stefna í það, ég rakst á Kötlu, Flóka og Miru, og átti síðan símtal við Henrý félaga minn útí porti. Í portinu stend ég og spjalla í símann þegar það kemur einhver gaur útum bakdyrnar og ætlar að rölta út að portdyrunum, ég spyr hann "Bíddu, hvað ertu að gera?", og hann svarar mér, mjög forviða "Uhh.. hvað ert þú að gera?", svo ég segi náttúrulega "Ég er að vinna hérna, og tala í símann, hvað ertu að gera hérna úti?". Við þessi orð hypjaði maðurinn sig aftur inn, en ætlunin var án efa að hleypa fólki inn bakdyra megin.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn frekar þreyttur og latur, kl. alveg að verða 2, svo ég ákvað að ég skildi kannski bara fara heim, en ákveð að fara inn og skila bjórglasinu mínu. Þegar inn kemur rekst ég á Líf sem var nýkomin með einhverjum vinum sínum, og ég sé að það er allt að verða vitlaust af aðsókn í staðinn, brjáluð röð osfrv. Svo ég sest niður með Líf í kannski hálftíma áður en hún vill kíkja eitthvert annað, og ég ákveð að fara bara að hjálpa Fred með hurðina.
Við tekur talsverð geðveiki, á meðan ég hafði verið úti að tala í símann klúðraðist talningin, og líklega hafa einhverjir tussusnúðar tekið sig til og smyglað slatta af fólki inn á bakvið, því staðurinn var fáránlega fullur. Svo einhverntímann í kringum 3:30-4:00 þá fer rafmagnið, og talsverð rafmagnsbrunalykt gýs upp.
Fred fer inn til að athuga hvað gangi á, á meðan ég reyni að útskýra fyrir fólkinu í röðinni að það sé enginn að fara inn meðan ástandið sé svona. Svo koma ljósin aftur í gang, og ég reikna með að allt sé í lagi, og fer að hleypa ólmum lýðnum aftur inn í skömmtum miðað við þá sem fara út. Kemur Fred skyndilega aftur, ekki hress, og spyr hvað í andskotanum ég sé að gera, það sé ekki þverfótað fyrir fólki inni, og allt sé í hassi -- sem ég vissi að sjálfsögðu ekki, búinn að vera einn að halda þvögunni sl. kortér, og sá ekkert nema að rafmagnið var komið aftur á, og hleypti jafn mörgum inn og út.
Einhver hafði víst hellt bjór yfir DJ græjurnar og ofan í jarðtengt fjöltengi, og ekki var hægt að kveikja á neinum afgreiðslukössum, né hljóðgræjum, og helmingur ljósanna á staðnum var hættur að virka, ofan í þetta lagðist þessi góða brunalykt -- nú fór fólkið að streyma út. Það sem mér þótti mest áhugavert var líklega allt fólkið í röðinni, sem beið samviskusamlega, og kvartaði í mér yfir því að fara ekki inn þegar fólk fór út.
Orðaskiptin hafa líklega verið eitthvað á þessa leið;
Ég: Það er ekkert áfengi, engin tónlist, og það er kviknað í! Það er enginn að fara hérna inn!
Þau: Ok, svo það er hvað langt þar til við förum inn? Hálftími?
Ég: Nei, viljiði fara inn, ekkert áfengi, engin tónlist, og eldur!?
Þau: Já, hvað er löng bið?
Þetta bjargaði kvöldinu mínu, ég hló bara að þeim, á endanum tókst okkur að vera búin að klára eiginlega allt milli 5 og 6, og hringdum á slökkviliðið til að líta yfir þetta, enda Kaffibarinn gamalt timburhús, og aldrei hægt að fara of varlega. Jafnvel á meðan slökkvibíllinn (stór rauður trukkur með krana og látum) var fyrir utan var fólk sem vildi komast inn!
Svo sem ekki áhugaverðasta kvöld í heimi, en fyrst ég bloggaði rétt áður en það hófst þá ákvað ég að láta afgang sögunnar fylgja hér líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2006 | 23:31
Ofvirkni..
Svei mér þá, ég held að kötturinn minn hafi fundið amfetamín neyðarbirgðirnar mínar, hún er gjörsamlega að fara á límingunum!
Hleypur um allt, ræðst á hvað sem fyrir finnst, tappa, kveikjara, lappir, föt, bækur, skó (já það er allur andskotinn á gólfinu hjá mér!).
Greinilegt að ég neyðist til að fara aðeins í bæinn meðan hún Gaea litla róar sig ;-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.4.2006 | 17:09
Góðar stundir á KB í gær
Í gærkvöldi ákvað ég að kíkja á "hangover treatment" kvöldið hans Nuno á Kaffibarnum, en hann var að spila, og stóð sig bara helvíti vel, sérstaklega kætti smá reggí session hann Berg bróður minn, og var mjög skemmtileg stemmning allt kvöldið.
Uppúr lokun voru nokkrir fastagestir þarna eftir ásamt staffi í góðu spjalli, og leyfði hann Svanur okkur að heyra mjög svo áhugaverðan disk. Diskur þessi hafði fallið í skaut hans Helga sem vann á kaffibarnum fyrir nokkrum árum, gegnum mann/kærasta vinkonu fyrrverandi konu sinnar, sá er Kanadamaður, og hafði skv. sögunni fengið þennan disk við að hreinsa út úr skáp manns sem hafði starfað með honum, eftir að sá síðarnefndi hætti.
Diskurinn er 16 lög, og samin, upptekin, og performuð af þessum óþekkta starfsmann. Sögunni fylgdi að lögin hefðu verið samin fyrir einhverja konu, og fyrstu fjögur lögin endurspegla góðu tíma sambands þeirra, og svo færir maðurinn sig út í sorglegri sálma, og ekki er hægt að dæma þetta öðruvísi en þessi diskur hafi verið stórfengleg síðasta tilraun hans til að bjarga sambandinu, eða fá hana aftur.
Tónlistarspekúlantar á svæðinu í gær voru sammála um að þetta væri talsvert stórvirki í ljósi þess að maðurinn hafði ekkert nema tilfinningar og skemmtara -- útkoman er kannski á mörkum þess að vera hlægileg, en einlægnin skín svo í gegn að erfitt er að finna ekki til með manninum og eins og allir (vonandi) vita snýst tónlist mun meira um að miðla hugmyndum og tilfinningum heldur en fullkominn performans.
Ég verð að segja að þessi saga var mjög áhugaverð, og skilst mér á Svani að í bígerð sé að gera heimildamynd um þennan disk, og finna þennan tilfinningaríka huldumann og sjá viðbrögð hans við því að tónlistin hans hafi endað á Íslandi og jafnvel fengið að óma á loftbylgjum landsins, en lög af disknum hafa verið notuð til að gjörsigra vondulagakeppni X-ins, nokkrum sinnum, og líklega fengið að óma á einhverjum fleiri börum borgarinnar líka.
Ætli hann hafi náð henni aftur með ástaróði sínum, eða er svarið við átakanlegu spurnöskri hans í síðasta laginu "Does anybody hear me cry?" flatt nei frá hennar hálfu?
Hvar/hver sem þú ert, we hear you cry man.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2006 | 11:03
Mammút
Á fimmtudaginn fór ég á tónleika með dEUS á skemmtistaðnum Nasa. Ástæðan fyrir för minni var tvíþætt og hvorug ástæðna minna tengdist dEUS sérlega mikið, nema ef fyrir veru Mammút á þessum tónleikum má þakka smekk þeirra dEUS manna.
Ég fór að stórum hluta til að sjá Mammút, eina af mínum uppáhalds hljómsveitum síðan ég fyrst heyrði í þeim fyrir rúmu ári síðan. Hljómsveitin spilar framsækið tilraunagjarnt rokk sem getur verið svolítið pönk skotið. Mögulega vegna pönk áhrifa og stíl söngkonunnar minnir hljómsveitin mig svolítið á gamalt stöff með sykurmolunum jafnvel.
Hvað sem því líður var þessi sveit að gefa út disk að ég held hjá Smekkleysu núna á miðvikudaginn, og voru útgáfutónleikar sem ég missti af, en diskinn hef ég verið að hlusta á með mikill velþóknun, núna í þriðju umferð sinni. Sum lögin hafði ég heyrt oft áður, eins og t.d. Þeir Reyna, Gítarlagið og Miðnæturmetal, og sitja þau því mögulega betur eftir í manni en margt af hinum lögunum, en í þessari þriðju umferð hlustunar hef ég sífellt meira gaman af plötunni í heild.
Þegar ég leiði hugann að því að meðalaldur sveitarinnar er líklega í kringum 17 ár get ég ekki annað en velt því fyrir mér að þau gætu átt eftir að smíða tónlist sem mun virkilega hrista upp í veröld minni.
En aftur að plötunni, nú þegar síðasta lag plötunnar, samnefnt hljómsveitinni, Mammút ómar í eyrum mínum í þriðja sinn síðan í gær eftirmiðdag, dettur mér ekkert lag í hug sem gæti dregið þessa plötu niður, þau hafa öll eitthvað til brunns að bera, en sérstaklega eftirminnileg og skemmtileg eru hraðari lögin þeirra eins og þau sem ég nefndi hér að ofan.
Ég mæli sterklega með þessari plötu, og vona að sem flestir kaupi hana og styðji þetta unga, efnilega band til frekari stórvirkja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2006 | 14:31
blog.is komið í loftið, allt að gerast
Já, nú má segja að smá reynsla sé að komast á kerfið hérna á blog.is, en fyrir áhugasama þá er líklega rúmt ár síðan hugmyndin kviknaði, og vinna hófst í haust. Hönnun kerfisins er svolítið stærri og flóknari en núverandi mynd þessi gefur til kynna, en vonandi tekst að bæta virkni við kerfið næstu vikurnar svo notendur þess fái að sjá það í fullri útgáfu sem fyrst.
Nú er það vinna við blaðberavefinn sem tekur við hjá mér, taumlaus gleði þar á ferð, en ég ætla að reyna að harka þetta af í vikunni, reikna ekki með að mínir nánustu sjái mig mikið -- ef frátaldir eru samstarfsmenn mínir Baldur og Henrý, sem vinna svipað mikið eða meira en ég. Já, hvernig er komið fyrir manni þegar samstarfsmenn eru að verða manns nánustu, þetta er kannski eitthvað sem ég hefði átt að spyrja mig að fyrir 3-4 árum, þegar ég tók mín fyrstu skref í átt að vinnualkóhólisma, sem þrátt fyrir aðlaðandi nafn þýðir ekki að maður fái að vera fullur í vinnunni.
Því er skemmst frá að segja að í gær fór ég í sýrustigs mælingu í maga og vélinda, það hljómar kannski ekki sérlega innræsið svo þetta gæti komið einhverjum á óvart. Fyrst var sprautað einhverju deyfandi geli uppí nös að mínu vali, og fyrir tilviljun valdi ég þá vinstri (læknirinn ákvað að ég hlyti þá að vera vinstrimaður, athugull maður). Þegar nösin var orðin stútfull af þessu geli var mér einfaldlega sagt að sjúga uppí nefið og kyngja. Að sjálfsögðu var gelið beiskt, og sveið undan því, þar til ég var svo dofinn að ég fann ekki fyrir vélindanu á mér, og allar taugar í hálsinum sögðu mér að ég væri ófær um að kyngja. Þá var rekin slanga uppí nefið, og niður í maga, og gerðar mælingar yfir ca. 15 mínútna tímabil, meðan slangan var dregin út sentimeter fyrir sentimeter.
Nú myndu sumir segja að mælingunni væri lokið, en þetta var aðeins fyrsta atlagan að aumingja vinstri nösinni, því ég gekk út af meltingarsjúkdómadeildinni með klæddan vír neðan úr maga útum nefið, límdan á þremur stöðum við höfuð, háls og nef. Vírinn var svo tengdur við ágætis tækjahlunk sem ég þurfti að hafa utan á mér næstu 24 klst, og gjöra svo vel að ýta á takka ef ég hugðist leggjast niður, eða borða eitthvað. Í morgun þegar ég fór og lét fjarlægja þetta apparat var slímhúðin í nefholi og hálsi orðin frekar ert, og leið mér eins og ég væri með slæma hálsbólgu -- fyrir utan hvernig glápt var á mig þegar ég kyngdi einhverju og togaðist í nefið á mér.
Það eina góða sem uppúr þessu fékkst er líklega hvernig nágrannakona mín (sem hatar mig) horfði á mig þegar ég sat inní bíl í gær að reyna að komast af stað, en af svip hennar mátti merkja eftirsjá yfir því að hegða sér alltaf eins og algjör tík við mig, og nöldra yfir mestu smáatriðum við hvert tækifæri. Já, sumir nágrannar mínir hata mig enn síðan ég (tilneyddur) hélt 2 óstjórnlega, óþolandi hunda ásamt fyrrverandi kærustu minni, að hennar frumkvæði. Kæru nágrannar ef þið eruð að lesa þetta, þá var það *ég* sem þurfti að þrífa eftir þessa hunda, og þoldi þá ekkert meira en þið, og ef ég væri aðeins meiri aumingi en ég er, væru þessir hundar þarna enn.. svo hættið þessu nöldri.
Vonandi fæ ég möguleika á næstu vikum til að gera þessa blog síðu aðeins veglegri, og nota hana sem samskiptatól til að ná næsta áfanga mínum í að fjarlægjast fólkið í kringum mig -- ekki hringja, lestu bara bloggið ... hljómar þetta ekki vel?
Adieu.. glöggir lesendur sem rákust á nýyrði í færslu þessari, mega benda á það í athugasemdum ;-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2006 | 19:42
Já, þetta heldur áfram
Ég held áfram að prufa kerfið hérna..
Þessi editor er með æði fyrir paragraphs, en með shif enter má gera venjulegt break, jeij
JEIJ
úps, notaði óvart enter... nýtt paragraph!
Bloggar | Breytt 30.3.2006 kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)